Endurskoðun á lögum um virðisaukaskatt stendur nú yfir í fjármálaráðuneyti. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra skipaði stýrihóp í febrúar síðastlinum sem var falið að gera tillögur að endurskoðun virðisaukaskattkerfisins og almennum vörugjöldum frá grunni.

Í fyrstu tillögum er meðal annars gert ráð fyrir að undanþágum fyrir aðila í ferðaþjónustu verði fækkað verulega. Áætlað er að stýrihópurinn skili fyrstu tillögum á haustmánuðum svo hægt verði að leggja fram frumvörp með fjárlögum næsta árs.

Guðrún Þorleifsdóttir lögfræðingur er formaður stýrihópsins. „Það fyrsta sem við gerðum var að kalla til aðstoð frá sérfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í skýrslu þeirra kemur fram að kerfið sé ekki nægilega hagkvæmt,“ segir Guðrún. „Það er búið að draga úr því tennurnar með alltof mörgum undantekningum og endurgreiðsluheimildum og svo er of langt bil á milli lægra og efra skattþrepsins,“ bætir hún við.

Lokað verði fyrir gloppurí ferðaþjónustu

Meðal fyrstu tillagna stýrihópsins verður fækkun á undanþágum frá greiðslu virðisaukaskatts í ferðaþjónustu. „Allir fólksflutningar eru til dæmis undanþegnir virðisaukaskatti sem þýðir að starfsemin er ekki skráð og ekki innheimtur virðisaukaskattur af sölu á ferðum. Þá hafa þau ekki frádráttarrétt vegna innskatts,“ segir Guðrún.

Þá hafi tilhneigingin verið sú að teygja undanþáguheimildir lengra út en efni stóðu til í upphafi. „Sem dæmi má nefna að hestaferðir, kajakferðir, og margt fleira er undanþegið virðisaukaskatti,“ segir Guðrún. „Það má kannski segja að menn hafi farið út á hálan ís við það að túlka hvað teljist til fólksflutninga,“ bætir hún við. „Í dag er þetta þannig að hvalaskoðunarferðir og alls konar afþreying er undanskilin greiðslu virðisaukaskatts þrátt fyrir að þar séu ekki uppi sjónarmið um fólksflutninga vegna einhverra almannahagsmuna. Það er ekki æskilegt að mati stýrihópsins,“ segir Guðrún.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .