Tíu sparisjóðir eru eftir hér á landi og þar af munu tveir þeirra að öllum líkindum sameinast Arion banka bráðlega auk þess sem einn hefur verið seldur Landsbankanum. Sjálfstæðir sjóðir sem ekki eru í eigu ríkisins eða banka eiga minna en hálft prósent af eignum bankakerfisins í dag. Allir sjóðir sem ríkið á hlut í hafa verið reknir með tapi á undanförnum tveimur árum en sjálfstæðir sjóðir hafa verið reknir með afar litlum hagnaði.

Bankasýsla ríkisins fer með hlut í fimm sparisjóðum á landinu í dag. Minnsti hluturinn er í Sparisjóði Norðfjarðar en þar á ríkið um 49,5% hlut en sá stærsti er í Sparisjóði Bolungarvíkur þar sem ríkið á 90,9% hlut. Sparisjóður Svarfdæla, sem ríkið á 90% hlut í, var raunar seldur tilLandsbankans í lok árs 2011 fyrir 165 milljónir króna en beðið er eftir samþykki frá Samkeppniseftirlitinu og ESA áður en kaupin ganga í gegn. Búist er við að sjóðnum verði slitið eftir að Landsbankinn tekur yfir rekstur hans. Þess má geta að Seðlabanki Íslands gaf eftir 343milljóna kröfu gagnvart Sparisjóði Svarfdæla og jafnframt var kröfu upp á 382 milljónir króna breytt í stofnfé þegar fjárhagur sjóðsins var endurskipulagður á árinu 2010.

Sparisjóður Norðfjarðar hefur einnig verið í söluferli en tilboð í sjóðinn þóttu of lág til að þeim yrði tekið. Þegar fjárhagslegri endurskipulagningu sjóðsins lauk í júní 2010 kom í ljós að Seðlabankinn gaf eftir 269 milljónir af skuldum hans. Tap var á rekstri allra sjóðanna fimm á árinu 2011.

Mest var tapið hjá Sparisjóði Vestmannaeyja eða 201,6 milljónir en minnst hjá Sparisjóði Norðfjarðar þar sem tapið nam 6,5 milljónum, að því er fram kemur í skýrslu Bankasýslu ríkisins. Þar kemur einnig fram að hagnaður hafi verið á rekstri allra fimm sjóðanna á árinu 2010. Þegar betur er að gáð þá er bókfærður annar hagnaður sem er eftirgjöf skulda af hálfu Seðlabankans og annarra kröfuhafa. Ef eftirgjöf skulda er dregin frá hagnaði ársins 2010 þá sést að tap var á rekstri allra þessara sjóða.

Nánar er fjallað um málið í úttekt á Sparisjóðunum í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.