Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara Íslands í knattspyrnu, er stoltur af uppgangi landsliðsins undanfarin misseri.

Ísland er nú í 23. sæti yfir bestu landslið heims á lista FIFA, efst Norðurlandanna, og hefur aldrei verið ofar. Lars leggur ekki allt of mikla áherslu á listann en fagnar því að fjöldi fólks um allan heim sé farinn að sýna íslenska landsliðinu áhuga.

„Þetta getur hjálpað liðinu að fá sjálfstraust, en listinn skiptir ekki öllu máli. Það helst auðvitað í hendur að vinna leiki og fara upp listann, þetta undirstrikar bara að liðinu hefur gengið vel. Það jákvæðasta er að virðingin gagnvart íslenskum fótbolta hefur aukist mikið undanfarin ár, bæði á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu, það eru allir að spyrja hvað er í gangi. Það er gaman að koma fram fyrir Íslands hönd og segja frá því hvað innviðirnir hérna eru góðir. Þegar vel gengur ber fólk virðingu fyrir því sem er að gerast og er forvitið. Það er bara frábært,“ segir Lars. Hann segir erfitt að spá fyrir um framtíð íslenskrar knattspyrnu en er nokkuð bjartsýnn.

„Ég held að grunnurinn fyrir íslenska knattspyrnu sé góður. En við höfum séð það í gegnum tíðina að margar smærri þjóðir hafa lent í því að þetta fer svolítið upp og niður. Ef við horfum til næstu 10-20 ára held ég í hreinskilni sagt að Ísland muni ekki fara á hvert einasta stórmót, en í augnablikinu er landsliðið frekar ungt og ef þeir leikmenn sem hafa verið í síðustu U21 landsliðum komast í góð félagslið og halda áfram að bæta sig, þá held ég að framtíð íslenska landsliðsins sé mjög björt næstu 4-5 árin.“

Ítarlegt viðtal við Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfara Íslands í knattspyrnu, má finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .