Fyrirtækið Umslag hefur nú fengið ISO 27001 öryggisvottunina og er fyrst íslenskra fyrirtækja í prentiðnaði til að fá slíka vottun.

Sölvi Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri Umslags, telur engan vafa á því að þessi vottun auki enn frekar tiltrú viðskiptavina Umslags varðandi vinnslu trúnaðargagna. Ljóst sé að mikil vakning er nú varðandi öryggismál og því kalli sé m.a. svarað af Umslags hálfu með ISO 27001 öryggisvottuninni. Umslag hafi síðastliðin 20 ár sérhæft sig í vinnslu viðkvæmra gagna og vottunin styrkir enn frekar þá vinnslu.

„Með þessari vottun er tryggt að Umslag fylgi ströngum kröfur um rétta meðhöndlun gagna og upplýsinga sem og notkun ferla í rekstri og aðbúnaði. Vottunin nær yfir alla starfsemi Umslags og er endurnýjuð árlega af bresku staðlastofnuninni BSI, sem gerir þá úttekt á öllum þáttum sem að vottuninni snúa,“ segir Sölvi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .