Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, sagði við blaðamenn í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun að allir stjórnmálaflokkar væru sammála þeirri niðurstöðu stýrihóps borgarinnar um að hafna bæri samruna Reykjavík Energy Invest og Geysis Green Energy.

Borgarráð samþykkti í morgun þá niðurstöðu og hefur þar með lýst því yfir að það fallist ekki á samrunann. Það telji jafnframt að þjónustusamningur Orkuveitu Reykjavíkur og REI sé óásættanlegur. Stjórn OR verður falið að fylga þessari niðurstöðu eftir.

Svandís sagði aðspurð um hugsanlega skaðabótakröfu að langbest væri fyrir alla að sátt næðist um niðurstöðuna. “Hins vegar er það þannig að þessi lína sem við erum að draga hér með afstöðu okkar í borgarráði kann að verða óaðgengileg fyrir einhverja aðila. Ef þeir kjósa að leita réttar síns  verða þeir að gera það. Ég myndi vilja sjá það að fjárfestar og aðrir aðilar sem koma að þessu máli áttuðu sig á því að almenningur gerir þessa kröfu sem við erum að reisa í borgarráði í dag og skilja það umhverfi sem við erum að reisa þá kröfu úr,” sagði Svandís við blaðamenn í Ráðhúsinu.