Hætta er á að spáð hafi verið of lágri verðbólgu og að hún verði meiri vegna vaxandi spennu í aðdraganda kjarasamninga, að mati Peningastefnunefndar Seðlabankans. Nefndarmenn voru þó sammála um að verðbólguhorfur hafi heldur batnað frá síðustu spá bankans.

Fram kemur í fundargerð Peningastefnunefndar að það mætti að miklu leyti rekja til þess að framleiðsluspenna væri talin myndast seinna og yrði ekki eins mikil og áður var búist við. Af þeim sökum væru horfur á að verðbólga yrði nálægt markmiði á spátímanum. Á móti verðbólgu umfram spár taldi Peningastefnunefnd geta vegið að áhætta tengd alþjóðlegri verðbólgu væri meiri niður á við en upp á við. Í ljósi lítillar alþjóðlegrar verðbólgu, nýlegrar gengisþróunar og þróunar innfluttrar verðbólgu ræddi nefndin líka hvort líkur væru á að verðbólga gæti hjaðnað enn frekar á allra næstu mánuðum.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri lagði til að vöxtum yrði haldið óbreyttum. Allir aðrir í nefndinni studdu tillöguna.