Landsréttur sýknaði alla þrjá sakborninga í svokölluðu Aurum Holding-máli en það voru þeir Lárus Welding, Magnús Arnar Arngrímsson og Jón Ásgeir Jóhannesson. Fréttablaðið greindi frá þessu en dómurinn var kveðinn upp klukkan 14:00 í dag.

Málið snerist um meint umboðssvik og hlutdeild í tengslum við 6 milljarða króna lánveitingu frá Glitni til félagsins FS38 ehf. árið 2008 en FS38 var í eigu Pálma Harðarssonar.

Í nóvember 2016 voru Lárus og Magnús Arnar sakfelldir í Héraðsdómi og hlaut Lárus eins árs fangelsisdóm en Magnús tveggja ára. Jón Ásgeir og Bjarni Jóhannesson, fyrrum viðskiptastjóri Glitnis voru sýknaðir.

Lárus og Magnús áfrýjuðu til Hæstaréttar en málið var síðan tekið upp í Landsrétti þegar hann hóf störf. Héraðssaksóknari fór síðan fram á áfrýjun í máli Jóns Ásgeirs en ekki í máli Bjarna.