Landsbankinn skilaði 13,7 milljarða hagnaði á fjórða fjórðungi 2006 og langt umfram spá greiningardeildar Glitnis um 7,6 milljarða króna hagnað. Uppgjör bankans er umfram væntingar Glitnis í flestum liðum rekstrarreiknings og efnahagsreiknings.

Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að uppgjörið bankans er verulega gott og gefur hlutabréfum bankans byr á markaði. Verð hlutabréfa bankans hefur hækkað um 3,1% það sem af er viðskiptum í dag eða í 30 kr. á hlut. V/I (P/B) hlutfall LAIS er nú um 2,2 sem er í takti við meðaltal erlendra banka. Arðsemi eigin fjár Landsbankans er hinsvegar mun hærri en hjá meðaltali erlendra banka sem réttlætir að öðru jöfnu hærra V/I hlutfall segir í Morgunkorni.

Allir tekjuliðir voru yfir spám að þessu sinni. Hreinar vaxtatekjur námu 9,6 milljörðum króna en aukning þeirra skýrst að mestu af 10,3% útlánavexti til viðskiptavina. Þóknanatekjur voru einnig yfir væntingum okkar og er þetta langbesti fjórðungur Landsbankans í þóknanatengdri starfsemi fram til nú.