„Eigið féð er horfið og lánveitendur tapa miklu,“ segir Jóhann Friðrik Haraldsson, fyrrverandi verkefnastjóri hjá SJ1 ehf., dótturfélagi Glitnis hf., sem á dögunum seldi skrifstofubyggingu í Ghent í Belgíu fyrir 105,7 milljónir evra, jafnvirði 16,2 milljarða íslenskra króna.

Með sölunni eru nánast allar fasteignir sem bótasjóður Sjóvár keypti á sínum tíma komnar í aðrar hendur. Þar á meðal er umtalaður íbúðaturn í Makaó.

„Einstaka verkefni skiluðu hagnaði en heildin kom út í tapi ef horft er frá augum bótasjóðs en fjárfestingarnar voru skrifaðar niður að hluta er þær voru færðar inn í Glitni,“ segir Jóhann Friðrik.

Byggingar um allan heim

Bótasjóður Sjóvár keypti fasteignina, sem telur um 66 þúsund fermetra á tíu hæðum, um mitt ár 2006 fyrir milligöngu bandaríska fjárfestingarbankans Bear Stearns fyrir 160 milljónir evra, jafnvirði í kringum 13 milljarða króna á þávirði.

Fasteignin var síðan færð í umsýslu hjá fjárfestingarbankanum Askar Capital, sem var í eigu Milestone, sem jafnframt átti Sjóvá. Við fall Sjóvár tók Glitnir yfir fasteignina ásamt öðrum fasteignum í SJ1. Þar á meðal voru skrifstofubyggingar Munchen í Þýskalandi, verslunarklasi í París í Frakklandi, hótelbygging í Milwaukee í Bandaríkjunum, íbúðaturn í Makaó sem og þróunarverkefni í Búkarest í Rúmeníu og í Pittsburg í Bandaríkjunum.

Með sölunni á skrifstofubyggingunni í Ghent hafa nánast allar fasteignirnar sem voru inni í SJ1 verið seldar. Einstaka verkefni skiluðu hagnaði en heildin kom út í tapi ef horft er frá augum bótasjóðs. Fjárfestingarnar voru skrifaðar niður að hluta áður en þær voru færðar inn í Glitni.

Allir töpuðu - SJ1 fékk þóknunina

SJ1 setti upphaflega 130 milljónir evra á skrifstofuna en varð vegna slakra aðstæðna á fasteignamarkaði að lækka verðið um 25 milljónir. Á sama tíma stóðu lán í 150 milljónum evra.

Jóhann segir að lánveitendur á borð við Goldman Sachs og fleiri fá kaupverðið, 105 milljónir evra, og tapi þeir því um 45 milljónum, jafnvirði rúmra sjö milljarða króna, á fjárfestingunni. Hann segir lánveitendur hafa í raun verið búna að afskrifa hluta af lánunum og færa þau inn í sjóði sem fara með eignir sem ólíklegt er að skili sér til baka.

En þrátt fyrir að upphaflegt eiginfjárframlag hafi tapast hafi SJ1 náð góðum samningum við lánveitendur um að fá greidda þóknun fyrir að hafa umsjón söluferlinu.