Saga fjárfestingarbanki var eini aðilinn sem kom að Stími og fékk lánveitingar sínar að fullu greiddar. Eitt af þeim málum sem tengjast húsleitum sérstaks saksóknara í fyrradag er kaup fagfjárfestasjóðsins GLB FX, sem var í vörslu Glitnis, á skuldabréf af Saga Capital en bréfið var útgefið af Stím ehf.

Skuldabréfið sem Saga seldi í ágúst 2008 átti að vera á gjalddaga 17. nóvember 2008. Það var þó víkjandi fyrir hluta af skuld Stíms við Glitni upp á 14 milljarða króna. Það þýddi að Stím hefði fyrst þurft að gera upp við Glitni áður en Saga fengi eina krónu greidda ef lánin yrðu látin falla á gjalddaga.

Til þess kom þó ekki því að Þorvaldur Lúðvík, forstjóri Sögu fjárfestingarbanka, leitaði til markaðsviðskipta Glitnis í ágúst með það fyrir augum að selja skuldabréfið. Þar átti hann samskipti við Jóhannes Baldursson. Af einhverjum ástæðum ákvað Glitnir að láta fagfjárfestasjóð á sínum vegum kaupa skuldabréfið, þrátt fyrir að ljóst hafi verið á þeim tíma en endurgreiðslugeta Stíms var í besta falli léleg.

Eignir Stíms urðu síðan verðlausar með öllu við bankahrun og félagið hefur ekki getað gert upp neina af skuldum sínum. Eini lánveitandi Stíms sem fékk lánveitingu sínu til baka var því Saga fjárfestingarbanki. Ef eigið féð sem bankinn setti inn í Stím er dregið frá þá hagnaðist hann um 42 milljónir króna með aðkomu sinni að Stími.

____________________________________

Árétting:

Að gefnu tilefni er rétt að taka fram að rannsókn sérstaks saksóknara snýr ekki að meintu skjalafalsi. Viðskiptablaðið hefur undir höndum tölvupóstsamskipti milli Fjármálaeftirlitsins og Sögu fjárfestingabanka sem sýna að kaup GLB FX á Stím-skuldabréfi Sögu hafi farið fram í ágúst 2008.

__________________________

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .

1.