Vegna umræðu um öryggi á vegum að undanförnu vill Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar koma því á framfæri að starfsmenn eru harmi slegnir yfir banaslysi á Kjalarnesi í júnílok og því að slíkar aðstæður hafi getað skapast við venjubundið viðhald á vegum.

Á dögunum birtist í fréttaþættinum Kveik á RÚV harðorð gagnrýni á Vegagerðina m.a. vegna framkvæmdanna við slitlag á Kjalarnesi og víðar og er væntanlega verið að vísa í umræðuna sem skapast hefur í kjölfarið.

Vegagerðin segist nú vinna að umfangsmikilli endurskoðun á öllum ferlum sem lúta að yfirlögnum á vegakerfinu. Markmið þeirrar vinnu sé að tryggja að slys sem þetta geti ekki komið fyrir aftur. Einungis einn verkþáttur í útboði verktakans sem sagður er þó vera með mikla reynslu stenst kröfur samkvæmt rannsókn og því hafa allir hinir vegakaflarnir í útboðinu verið fjarlægðir.

Yfirlýsing frá forstjóra Vegagerðarinnar:

„Vegna umræðu um öryggi á vegum að undanförnu viljum við hjá Vegagerðinni koma eftirfarandi á framfæri,“ segir Bergþóra í yfirlýsingunni sem birtist á vefsíðu Vegagerðarinnar .

„Í júní síðastliðnum átti sér stað hræðilegt slys á Kjalarnesi.  Á umræddum vegarkafla var nýlokið viðhaldi á malbiksyfirborði og beindust sjónir strax að frávikum í framkvæmd þessa verks. Rannsóknir á viðnámi á yfirborði sýndu í framhaldinu að miklu munaði að uppfylltar væru kröfur í útboðslýsingu til verksins.

Í rannsóknum sem gerðar voru í kjölfarið og enn eru í gangi kemur berlega í ljós að umrætt malbik stóðst ekki útboðskörfur Vegagerðarinnar. Augljóst samhengi er milli þeirra galla og þeirra aðstæðna sem sköpuðust á slysstað.

Við starfsmenn Vegagerðarinnar erum harmi slegin yfir slysinu og því að slíkar aðstæður hafi getað skapast við venjubundið viðhald á vegum. Í framhaldi af þessu hafa allir hlutar umrædds verks verið fjarlægðir utan einn sem sannarlega stóðst kröfur til viðnáms.

Verkið sem um ræðir var framkvæmt af verktaka með mikla reynslu. Sú reynsla kom því miður ekki í veg fyrir þær afleiðingar sem við öll þekkjum.

Vegagerðin vinnur nú að umfangsmikilli endurskoðun á öllum ferlum sem lúta að yfirlögnum á vegakerfinu. Markmið þeirrar vinnu er að tryggja að slys sem þetta geti ekki komið fyrir aftur.“