Dansk-bandaríska fyrirtækið Lemonsqueeze, sem aðstoðar sprotafyrirtæki við að komast inn á bandarískan markað, færði nýverið út kvíarnar – og vill nú aðstoða íslensk fyrirtæki við það að komast inn á þennan stærsta markað heims, Bandaríkjamarkað. Oddur Sturluson, sem starfar jafnframt fyrir Icelandic Startups, er tengiliður og samstarfsaðili Lemonsqueeze á Íslandi. Hann segir markaðinn vestanhafs uppfullan af tækifærum og áskorunum.

Á vefsíðu Lemonsqueeze, sem hefur aðsetur í hinni æsispennandi New York-borg, er hægt að sjá árangurstölur fyrirtækisins, sem hefur aðstoðað 47 fyrirtæki við innrás inn á hinn bandaríska markað. Þar er tekið fram fram að hingað til, hafi 5,332 gallon af kaffi, verið drukkin í ferlinu, við að koma evrópsku fyrirtækjunum inn á Bandaríkjamarkað. Lemonsqueeze var stofnað af danska frumkvöðlinum Mik Strøyberg árið 2013.

„Við erum að vonast til að sjá fleiri íslensk sprotafyrirtæki taka stefnuna á bandaríska markaðinn. Eins og hefur ekki farið fram hjá neinum þá hefur íslenska sprotasenan vaxið mikið á síðustu misserum. Athygli erlendra fjárfesta og neytenda hefur verið mikil á því sem hefur verið að gerast hér og á Norðurlöndunum,“ segir Oddur. „Markmiðið er að opna íslenska umhverfið fyrir öllu því sem heimurinn hefur upp á að bjóða.“

Fædd til að hugsa út á við

Oddur nefnir það einnig að íslenski markaðurinn sé lítill prufumarkaður. „Þessi íslensku fyrirtæki þurfa að vera, eins og frasinn sem er oft notaður í sprotabransanum segir: „born global“, eða það sem gæti útlagst sem fædd til þess að hugsa út á við. Ég sé þetta sem lið í því.“

Oddur hefur verið viðriðinn íslensku sprotasenuna í dágóðan tíma. „Frá því að ég stofnaði fyrsta fyrirtækið þegar ég var 23 ára hef ég verið viðriðinn frumkvöðlasenuna hérna heima. Svo hef ég verið að vinna fyrir Icelandic Startups í tæplega tvö ár sem verkefnastjóri. Maður lifir og hrærist í þessu,“ segir hann.

Áskoranir og tækifæri á bandarískum markaði

Spurður hvort einhver verkefni séu farin af stað, þá segir Oddur að margir aðilar hafi haft samband við hann eftir að tilkynningin barst. Hann segir að eins og gefur augaleið sé helsta áskorunin bandaríski markaðurinn vegna þess hversu stór hann er og hve mikil samkeppni ríki þar. „Til að mynda eru höfuðstöðvar Lemonsqueeze í New York. Þangað er gott að fara til að staðfesta hversu vel varan passar á bandarískan markað,“ segir Oddur.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .