*

föstudagur, 22. janúar 2021
Innlent 11. apríl 2015 13:10

Allir vilja fjölbreyttari orkugeira á Íslandi

Afstaða Íslendinga gagnvart lagningu sæstrengs er kortlögð í nýlegri rannsókn.

Kári Finnsson
european pressphoto agency

Gróflega er hægt að flokka afstöðu fólks gagnvart lagningu sæstrengs á milli Íslands og Bretlands í þrjá hópa: markaðssinna, umhverfisverndarsinna og efasemdamenn. Þótt skoðanir hópanna séu mismunandi eru þeir allir sammála um að auka þurfi fjölbreytni orkufreks iðnaðar á Íslandi. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í meistaraverkefni Búa Steins Kárasonar í auðlinda- og umhverfishagfræði frá Edinborgarháskóla.

„Venjulega þegar rætt er um sæstrenginn þá er yfirleitt fjallað um mögulega arðsemi hans og hvort við höfum fjárhagslegt bolmagn til verkefnisins. Minna hefur hins vegar farið fyrir því hvað fólki finnst almennt um þessa aðgerð. Ég vildi kanna hvort hægt væri að leggja sæstreng á þann máta að almennur samhljómur væri um það í þjóðfélaginu,“ segir Búi um aðdraganda rannsóknarinnar.

Þrír hópar

Búi gerði könnun á meðal sérfróðra í orkugeiranum og viðskiptalífinu til þess að vinna lista yfir spurningar sem hann lagði fyrir sérvalinn hóp fólks samkvæmt svokallaðri Q rannsóknaraðferð. Við úrvinnslu svaranna flokkaði hann afstöðu svarenda í þrjá aðskilda hópa: markaðssinna, umhverfisverndarsinna og efasemdamenn.

Að sögn Búa líta markaðssinnar á raforku sem hverja aðra markaðsvöru. „Þeir eru virkilega hlynntir þessari aðgerð og telja að Ísland myndi fá besta mögulega verðið fyrir raforkuna og það myndi hámarka hag þjóðarbúsins að tengja kerfin saman. Að því gefnu að hingað komi fjársterkir aðilar að verkefninu, en enginn í þessum hópi telur að íslenska ríkið hafi burði eða getu í að standa eitt að þessari framkvæmd,“ segir hann. Umhverfisverndarsinnar hafa efasemdir fyrir framkvæmdinni samkvæmt rannsókninni en þeir eru engu að síður opnir fyrir henni að því gefnu að aðgerðin hafi jákvæð umhverfisáhrif.

Þriðji hópurinn, efasemdamennirnir, hafa efasemdir fyrir framkvæmdinni út frá bæði efnahagslegum og umhverfislegum sjónarmiðum. Þeir telja t.a.m. að íslenskir aðilar þurfi að eiga strenginn en það er í andstöðu við hina tvo hópana. „Þeir vilja meina að með því nota orkuna í orkufrekum iðnaði innanlands er Ísland að leggja mest af mörkum við að takast á við þær áskoranir sem heimurinn stendur frammi fyrir í tengslum við orkumál. Ef strengurinn yrði lagður myndi skapast freistnivandi að þeirra mati og okkur gæti hætt til að ganga of nærri náttúrulegum auðlindum okkar með hræðilegum efnahagslegum og umhverfisafleiðingum.“ segir Búi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.