Ráðgert hafði verið að halda eitt námskeið á vegum Útflutningsráðs um símsvörun á ensku í febrúar en vegna mikillar eftirspurnar var þeim fjölgað í fjögur og er fullbókað á þau öll. Námskeiðin eru haldin í samstarfi við Mími-símenntun og er þetta annað árið sem slík námskeið eru haldin sérstaklega fyrir íslensk útflutningsfyrirtæki.

Ætlunin er að halda eitt námskeið í apríl og auk þess stendur til að bjóða símsvörunarnámskeið austur á fjörðum að beiðni heimamanna þar segir í fréttabréfi Útflutningsráðs.

Guðjón Svansson, verkefnisstjóri hjá Útflutningsráði, segir að á námskeiðinu sé farið yfir öll grundvallaratriði í símsvörun á ensku. ?Námskeiðið er byggt upp á hagnýtum æfingum. Nemendur læra algengan orðaforða, að taka á móti skilaboðum og veita upplýsingar á ensku. Það er auðvitað afar brýnt fyrir fyrirtæki í útflutningi að hafa starfsfólk sem er vel að sér í þessum þáttum við símsvörun. Símtal er oft fyrsta skrefið í viðskiptum og svörunin gefur fyrstu vísbendingu um viðkomandi fyrirtæki.?