*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 19. september 2016 15:30

„Allir vinir enn þá“

Þorsteinn Þorsteinsson framkvæmdastjóri fjölskyldufyrirtækisins Blue Car Rental segist hafa lært mikið af örum vexti fyrirtækisins.

Pétur Gunnarsson
Haraldur Guðjónsson

Þorsteinn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri bílaleigunnar Blue Car Rental, segir það botnlausa vinnu að reka bílaleigu yfir sumartímann. „Það vantar ekki verkefnin og stundum vandamálin, en þau eru til að leysa, við lærum af hverju sumrinu“ segir Þorsteinn.

Blue Car Rental, sem var stofnuð árið 2010 og er nú stærsta alíslenska bílaleigan, var með um 1000 bíla í heildina í sumar og var jafnframt með 55 manns í vinnu. Aðspurður um hinn mikla vöxt fyrirtækisins segir Þorsteinn „það fylgja þessu auðvitað vaxtarverkir eins og hverju öðru. Við höfum aldrei verið með svona stóra bílaleigu áður - þannig maður er alltaf að læra eitthvað nýtt. Þetta er krefjandi en skemmtilegt verkefni.“

Þorsteinn er að mestu leyti sáttur með markaðsumhverfi bílaleigna, en telur þó margt ábótavant. Hann telur inngönguna inn á markaðinn tiltölulega þægilega, en aðrir óbeinir þættir eins og vegakerfið og fjölda ferðamanna getur reynst bílaleigum erfiðir.

Illa undirbúin fyrir fjallvegi

Þorsteinn telur að fjallvegirnir á Íslandi séu margir hverjir slæmir og að þar fari gífurlega mikil umferð í gegn. „Það þarf að gera einhverjar ráðstafanir. Það er margföldun á umferð þarna. Hluti af því að fara til Íslands er að keyra þessar fjallaleiðir. Við fórum þarna í fyrra, ég og bróðir minn sem er eigandi fyrirtækisins með mér og þarna er fólk á alls konar, misvel búnir. Það er ekkert sem stoppar það, krafan er bara um fjórhjóladrifna bíla.“

Hann bætir þó við að hann vilji alls ekki tala illa um Vegagerðina, hann telur hana vera að gera sitt besta í því umhverfi sem hún vinni við. Fyrirtækið útskýrir þó fyrir ferðamönnum hvernig umhverfið á þessum fjallvegum áður en þeir halda af stað.

Afi kíkir í kaffi — fjölskyldufyrirtækið Blue Car Rental

Blue Car Rental er nokkurs konar fjölskyldufyrirtæki. „Við erum bræður sem rekum þetta, systir okkar er svo útibússtjóri í Reykjavík og afi gamli kemur og kíkir í kaffi. Bróðir minn og konan hans eiga þetta saman. Samstarfið gengur ljómandi vel - það eru allir góðir vinir enn þá“ segir Þorsteinn að lokum.