Endurgreiðsluheimildir af virðisaukaskatti vegna húsnæðis munu lækka úr 100% í 60% þegar bráðabirgðaákvæði þar um rennur sitt skeið. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi næsta árs sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti í gær. Þar segir að þetta sé hluti af þeim breytingum á virðisaukaskattskerfinu sem fyrirhugaðar eru þótt ekki sé hægt að líta á breytinguna sem eiginlega tekjuaðgerð.

Heimild til endurgreiðslu á 100% af virðisaukaskatti vegna vinnu við viðhald eða endurbætur á húsnæði og frístundahúsum voru samþykkt á Alþingi í mars árið 2009. Um var að ræða þjóðarátak stjórnvalda í samvinnu við Samtök verslunar og þjónustu, VR og Samtök iðnaðarins til að koma hjólum atvinnulífsins í gang í kjölfar kreppunnar og þess atvinnuleysis sem því fylgdi.

Í lögunum segir að þeir sem rétt eigi á endurgreiðslu séu þeir sem hafi greitt af þjónustu hönnuða og eftirlitsaðila vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu húsa og þeim eigendum húsnæðis sem þeir greiddu vegna vinnu arkitekta, verkfræðinga og tæknifræðinga vegna hönnunar eða eftirlits við endurbætur eða viðhald á húsnæði.