Tæknifrumkvöðullinn, stórstjarnan og einn ríkasti maður heims, Elon Musk, verður gestastjórnandi bandaríska skemmtiþáttarins Saturday Night Live í kvöld. Stóra spurningin í huga margra er nú hvort hann muni láta eitthvað útúr sér sem skekur hlutabréfamarkaði, en jöfurinn og sprelligosinn hefur átt það til.

Á miðvikudag síðastliðinn tókst geimferðafyrirtæki hans, SpaceX, að lenda nýjustu eldflaug sinni heilu og höldnu, og ekkert lát hefur verið á uppbyggingu rafbílaframleiðslufyrirtæki hans, Tesla, þótt hlutabréf þess hafi verið nokkuð stöðug það sem af er ári eftir ævintýralegar hækkanir í fyrra.

Þátturinn, sem er áratugagamall, er eins og nafnið gefur til kynna tekinn upp og honum sjónvarpað beint, og er fenginn frægur gestastjórnandi í hverjum þætti. Þótt Musk hafi ekki stýrt SNL – eins og þátturinn er gjarnan kallaður – áður, hefur hann verið iðnari við að grínast opinberlega en flestir í hans stöðu.

Honum bregður reglulega fyrir í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum, og hefur látið ýmislegt flakka á Twitter, auk þess að hafa mætt í tvígang í langan spjallþátt hlaðvarpskóngsins Joe Rogan. Afrek hans á sviði nýsköpunar, framtíðarsýn hans og sérviska hafa tryggt honum dyggan hóp aðdáenda. Fólki þykir þó mismikið til hans koma, og hann hefur einnig hlotið nokkra gagnrýni fyrir markaðsskekjandi beinskeytni sína í opinberum ummælum.

Musk mun hafa handrit til að fara eftir í kvöld, en ljóst er að bein útsendingin gefur honum nokkuð svigrúm til að setja mark sitt á þáttinn, og af sögunni að dæma, jafnvel fjármálamarkaði.