Seðlabankinn birti á miðvikudag niðurstöður könnunar á væntingum markaðsaðila. Væntingar markaðsaðila hafa breyst þó nokkuð frá síðustu könnun sem framkvæmd var í janúar síðastliðnum. Verðbólguvæntingar hafa aukist til skamms tíma, markaðsaðilar reikna nú með vaxtahækkunum á árinu og mun fleiri telja taumhald Seðlabankans of laust.

Rætt er við Jón Bjarka Bentsson, Aðalhagfræðing Íslandsbanka um niðurstöður könnunarinnar í Viðskiptablaðinu sem kom út fyrir helgi.

Verðstöðugleikinn aftur í forgang

„Það er ákveðið áhyggjuefni hve mikið væntingar hafa hliðrast á milli kannana, sama hvert litið er. Það hefur orðið gjörbreyting á viðhorfum til aðhalds Seðlabankans frá því í janúar sem endurspeglar hvað skammtíma verðbólguvæntingar hafa hækkað skarpt núna síðustu vikur," segir Jón Bjarki. Væntingar um hækkanir á meginvöxtum eru að mati Jóns Bjarka afleiðing af hærri verðbólgu en fleira getur þó spilað þar inn í.

„Hugsanlega hefur það líka áhrif að óvissa um nærhorfur í efnahagslífinu er eitthvað að minnka. Við erum sem betur fer komin á gott skrið með bólusetningar, ferðamenn farnir að stinga hér upp kollinum og það virðist verða ólíklegra að efnahagsbatinn láti bíða eftir sér. Þetta var auðvitað tvísýnna á meðan við vorum að fá nýjar bylgjur og bakslag að verða í þróun og framleiðslu bóluefna."

Hann bendir þó á að horfa verði til þess að við svo mikla óvissu hljóti Seðlabankinn frekar að horfa til þess að vera viðbúinn bakslagi í viðspyrnunni en að hækka vexti of snemma og eiga þá á hættu á að leggja stein í götu hennar.

„Ef efnahagsþróunin verður hagfelldari þá er það allt gott og blessað og minni ástæða til þess að gera einhverjar ráðstafanir, á meðan hitt er áhættustjórnun. Sem betur fer er þessi óvissa að minnka og þá verður frekar hægt að bregðast við þáttum eins og verðbólgunni, án þess að auka hættuna á því að skemma fyrir efnahagsbatanum og framlengja samdrættinum. Þegar allt kemur til alls er stöðugt verðlag forgangsverkefni Seðlabankans en hann á að sjálfsögðu að taka tillit til þess að mýkja hagsveifluna eftir megni, varðveita fjármálastöðugleika og þess háttar. Nú þegar minni hætta er á að þeir áhættuþættir raungerist getur Seðlabankinn aftur sett verðstöðugleikann í forgang."

Seðlabankinn áunnið sér trúverðugleika

„Góðu fréttirnar í niðurstöðum könnunarinnar eru að væntingarnar eru eftir sem áður ágætlega skorðaðar við verðbólgumarkmið þegar horft er til lengri tíma. Það væri mikið áhyggjuefni fyrir Seðlabankann ef það væri að losna um þær. Sem betur fer er bankinn búinn að ávinna sér nægan trúverðugleika á síðustu árum til þess að sú skoðun að verðbólgan verði að jafnaði við markmiðið er greinilega ráðandi hjá markaðsaðilum."

Áhugavert verði að fylgjast með þróun næstu mánuðina, að mati Jóns Bjarka. „Skoðanir eru orðnar miklu skiptari en þær voru fyrir nokkrum mánuðum um hvert stefnir næstu mánuðina bæði hvað varðar verðbólguna og hvernig Seðlabankinn muni bregðast við. Ég hugsa að allra augu verði á vaxtaákvörðun Seðlabankans í næstu viku, í enn ríkari mæli en verði hefur undanfarið."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .