Fimm nýir hópferðabifreiðar í eigu Iceland Excursions fengu sín fyrstu skrásetningarnúmer sama daginn í vikunni. Tvær af rútunum eru 59 farþega og þrjár taka 19 farþega.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Iceland Excursions, sem Íslendingar þekkja eflaust vel undir nafninu Allrahanda.  Iceland Excursions fær aðrar fimm rútur til viðbótar í vor og verða þá um 50 hópferðabifreiðar í flota fyrirtækisins.

Fram kemur að stóru rúturnar tvær eru af gerðinni Volvo, yfirbyggðar hjá Sunsundegui á Spáni með hliðsjón af notkun á norðurslóðum. Minni rúturnar þrjár eru af gerðinni Mercedes Benz Sprinter.

„Þegar allar 10 rúturnar af árgerð 2012 verða komnar í gagnið hjá okkur í vor verðum við með yngsta bílaflotann í fólksflutningum á Íslandi, að meðaltali aðeins rúmlega 4  ára gamlan,“ segir Þórir Garðarsson, markaðsstjóri Iceland Excursions, í tilkynningunni.

„Það skiptir máli að vera með nýlega bíla, því þeir eru umhverfisvænni, menga minna og eyða minna eldsneyti. Þeir þurfa einnig minna viðhald en eldri bílarnir, eins og gefur að skilja.“