Rútufyrirtækið Allrahanda GL, sem rekur ferðaþjónustu undir merkjum Grayline hér á landi var rekið með 699 milljóna tapi á síðasta ári sem litaðist mjög af heimsfaraldrinum miðað við 404 milljóna tap árið 2019.

Í skýrslu stjórnar með ársreikningnum kemur fram að félagið hafi verið nánast tekjulaust frá því í mars árið 2020 og verið ógjaldfært á meðan. Félagið fékk heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar síðasta sumar og hefur frest til 25. júní næstkomandi til þess að ljúka þeirri vinnu. Stefnt er að því að ná nauðasamningi við kröfuhafa fyrir þann tíma.

„Rekstrarhæfi félagsins til frambúðar veltur á því hvort tekst að ljúka nauðasamningi og koma félaginu aftur í rekstur eftir tekjuhrunið sem varð í mars á síðasta ári,“ segir í skýrslu stjórnar.

Þó hefur reksturinn verið þungur áður en kom að heimsfaraldrinum en félagið skilaði síðast hagnaði árið 2015. Samanlagt tap félagsins árin 2016 til 2020 nemur um 1,9 milljörðum króna.

Rekstrartekjur féllu úr 2,2 milljörðum í 807 milljónir króna á milli áranna 2019 og 2020. Tekjur félagsins náðu hámarki ári 2017 þegar þær námu um fjórum milljörðum króna en lækkuðu í um þrjá milljarða árið 2018.

Rekstrargjöld lækkuðu úr um 2,56 milljörðum í 1,03 milljarða króna á milli áranna 2019 og 2020 og rekstrartap fyrir afskriftir (EBITDA) lækkaði úr 384 milljónum í 227 milljónir króna. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 291 milljón árið 2020 en voru jákvæðir um 24 milljónir árið 2019. Tap vegna gengismunar árið 2020 nam 90 milljónum og tap af sölu hlutabréfa 75 milljónum króna.

Fjöldi ársverka hjá félaginu voru 98 en voru 136 fyrir ári. Laun og starfsmannatengdur kostnaður félagsins nam um 607 milljónum króna miðað við 1,4 milljarða fyrir ári.

Stjórnin segist vongóð um að byggja megi reksturinn upp að nýju þegar ferðaþjónustan tekur við sér og að reksturinn hafi verið á réttri leið í upphafi ársins 2020. Félagið hafi haldið vel utan um viðskiptasambönd með reglulegum samskiptum við viðskiptavini á meðan það hefur verið í COVID dvala sem muni skila sér til framtíðar. Þá gefi fyrirspurnir og bókanir fyrir seinni hluta þessa árs gefi tilefni til bjartsýni.

Eigið fé félagsins var neikvætt í lok árs um 242 milljónir króna, en skuldir námu tæplega 2,1 milljarði króna og eignir námu ríflega 1,8 milljörðum króna.

Framtakssjóðurinn Akur í rekstri hjá Íslandssjóðum og að mestu í eigu lífeyrissjóða er stærsti hluthafinn með 49% hlut. Þá eiga Sigurdór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Allrahanda og Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Allrahanda, 25,5% hlut hvor um sig.