Ferðaskrifstofan Iceland Excursions Allrahanda hefur samið um kaup á meirihluta í Hveravallafélaginu ehf af Húnavatnshreppi. Viðskiptin eru liður í uppbyggingu ferðaþjónustu á Hveravöllum.

„Við hyggjum á töluverða uppbyggingu á Hveravöllum á næstu árum, með það í huga að vernda friðlandið og tryggja jákvæða upplifun ferðamanna af þessu einstaka umhverfi,“ segir í tilkynningu. Þar er haft eftir Þóri Garðarssyni, markaðs- og sölustjóra Iceland Excursions Allrahanda, sem jafnframt er nýr stjórnarformaður Hveravallafélagsins, að í tengslum við uppbygginguna verði húsakynni rifin eða færð og ný reist fjær hverasvæðinu. Vegna sögulegs gildis mun gamli skálinn á Hveravöllum þó standa áfram. Tjaldstæðið verður sömuleiðis fært frá kjarna friðlandsins en þær framkvæmdir sem settar verða í forgang á þessu ári snúa að frárennsli og veitum ásamt hönnun á nýjum fjallaskála innan þess deiliskipðulags sem er í gildi á svæðinu.

Sjálfseignarstofnun Auðkúluheiðar á landið á Hveravöllum og hefur Hveravallafélagið lóðaleigusamning um nýtingu þess næstu áratugina, samtals um 50 hektara.