Atvinnuleysi heldur stöðugt áfram að aukast og nú eru 12.534 skráðir atvinnulausir samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar. Þar af eru 7.848 á höfuðborgarsvæðinu, 5.098 karlar og 2.750 konur. Búsit er við mikilli fjölgun á skrá nú um næstu mánaðamót.

Karlar á atvinnuleysisskrá eru nú 7.895, en konur 4.639. Eru karlar nær helmingi fleiri á atvinnuleysisskrá á öllu landinu, nema á Vestfjörðum þar sem er nánast jafnt í báðum hópum. Þar er atvinnuleysi líka minnst og samtals 84 á atvinnuleysisskrá, 43 karlar og 41 kona.

Sem fyrr er atvinnuleysið utan höfuðborgarsvæðisins mest á Suðurnesjum eða 1.529. Næst mest er atvinnuleysið á Norðurlandi eystra, eða 1.302. Þá kemur Suðurland með 847, Vesturland með 423, Austurland með 364, Norðurland vestra með 137 og Vestfirðir rekja eins og fyrr segir lestina með 84 á atvinnuleysisskrá.