Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, segir það ekki útilokað að Kauphöll Íslands sameinist norrænu kauphallarsamstæðunni OMX.

Kauphöllin og OMX, sem á og rekur kauphallirnar í Stokkhólmi, Helsinki, Kaupmannahöfn og Eystrasaltsríkjunum, greindu frá því í dag að hafa hafið viðræður um nánara samstarf.

"Það er alls ekki útilokað (að sameinast OMX) en engar ákvarðanir hafa verið teknar," sagði Þórður í samtali við Viðskiptablaðið.

Stjórn Kauphallarinnar ákvað í fyrra að hefja ekki samrunaviðræður við OMX eftir að hafa leitað ráða hjá alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækinu Boston Consulting. Þórður segur forsendur samruna og nánara samstarfs hafa breyst.

Hann sagði aukinn ávinning af samstarfi í sjónmáli og að nú liggi fyrir að skráð íslensk fyrirtæki geti orðið hluti af samnorrænni vísitölu OMX, en það lá ekki fyrir í fyrra. Einnig eykur aukin samþjöppun kauphalla í Evrópu og Bandaríkjunum áhuga ICEX á nánara samstarfi við OMX.

Þórður segir samstarfið geta aukið sýnileika íslenskra fyrirtækja og hvetja til aukinna viðskipta með bréf íslenskra fyrirtækja.