Bandaríkjamaðurinn Tom Kelley hélt fyrirlestur fyrir fullum sal í Háskólabíó í dag. Fyrirlesturinn hét „Nurturing a culture of creative confidence" eða Fóstrun menningar með sköpunarkjarki. En Kelley er um þessar mundir á kynningarferð fyrir bók sína Creative Confidence, sem hann skrifaði ásamt bróður sínum David.

Tom Kelley sagði frá því að það þyrfti bæði sköpunarkjark og hugrekki til að framkvæma hugmyndir til að leysa sköpun úr læðingi.

Samkvæmt könnun sem Kelley framkvæmdi voru 80% þátttakenda sammála því að það sé mjög mikilvægt að leysa sköpun úr læðingi til að viðhalda efnahagslegum vexti. Hins vegar töldu einungis 25% aðspurðra að þeir væru að nýta sköpunarkraft sinn til fulls í vinnu. Kelley segir að mjög mikilvægt sé að eftirstandandi 75% aðspurðra nái að nýta sköpunarkraft sinn til fulls, enda sé mikill efnahagslegur ávinningur á því.

Kelley benti á þrjár leiðir til að viðhalda sköpunarkjarki: með því að öðlast betri skilning á fólki og þörfum þeirra, að koma fram við lífið eins og eina stóra vísindatilraun og með því að nýta sér styrk sagnahefðarinnar.

VB Sjónvarp ræddi við Tom Kelley eftir fyrirlesturinn í Háskólabíói í dag.