Þýsk stjórnvöld vilja algert innflutningsbann á rússneska olíu til Evrópusambandsins, en segjast þurfa nokkra mánuði til að gera ráðstafanir innan landsins vegna bannsins. Áður höfðu þau talað um að það tæki út árið.

Í frétt Financial Times um málið er yfirlýsingin sögð auka þrýsting á leiðtoga sambandsins og stofnanir þess um að samkomulag náist um frekari þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi á sviði orkumála.

Auknar þvinganir í orkumálum höfðu helst Þjóðverjum, sem eru afar háðir orkuinnflutningi frá Rússlandi í formi olíu og gass. Hægt og bítandi hefur landið – sem er stærsta hagkerfi og voldugasta meðlimaríki ESB – hinsvegar samþykkt og talað fyrir aukinni hörku viðskiptaþvingana, þrátt fyrir þau stórfelldu áhrif sem það hefði á efnahag þess.

Haft er eftir einum nánasta ráðgjafa Olaf Scholz, kanslara Þýskalands, að þar í landi ríki einlægur vilji til að hætta að kaupa orku af Rússlandi, en þjóðin þurfi lágmarkstíma til að útvega olíu annarsstaðar frá til að geta tekið þátt í aðgerðunum.