Allsherjarnefnd Alþingis mælir með því að ríkissjóði verði heimilt að styrkja mögulega málssókn á hendur breskum stjórnvöldum vegna aðgerða þeirra í kjölfar neyðarlaganna.

„Nefndin telur að það geti varðað miklum almannahagsmunum að úr því verði skorið með málsókn á hendur breskum yfirvöldum hvort aðgerðir breskra stjórnvalda gegn íslenskum lögaðilum á tímabilinu 1. október til 1. desember 2008 hafi brotið gegn lögum," segir í nefndaráliti allsherjarnefndar.

Nefndin mælir því með að frumvarp fimm þingmanna úr öllum flokkum um þetta efni verði samþykkt á Alþingi. Fyrsti flutningsmaður er Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks.

Í frumvarpinu er rifjað upp að bresk stjórnvöld hafi í kjölfar neyðarlaganna fryst eignir Landsbankans þar í landi á grundvelli hryðjuverkalaga. „Sama dag gripu bresk stjórnvöld til aðgerða sem gerðu að verkum að stærsta dótturfélag Kaupþings banka hf., Singer & Friedlander, var knúið í greiðslustöðvun. Í kjölfarið varð Kaupþing banki hf. ógjaldfær."

Málshöfðunarfrestur er að renna út

Í frumvarpinu segir að, að óbreyttu, séu það fyrst og fremst kröfuhafar bankanna tveggja sem ákveði hvort höfða skuli mál gegn breskum stjórnvöldum vegna athafna þeirra hinn 8. október.

Flutningsmenn telja hins vegar að það varði miklum almannahagsmunum að í málsókn á hendur breskum yfirvöldum verði ráðist til að freista þess að fá úr því skorið hvort lög hafi verið brotin með aðgerðunum.

Þá sé  brýnt að leggja frumvarpið fram nú vegna þess að fyrir liggur að viðeigandi málshöfðunarfrestir samkvæmt breskum lögum, a.m.k. í máli Kaupþings banka hf., séu að renna út.

Frumvarpið má í heild sinni finna hér .