Eftir einungis tæpa tíu mánuði við völd stendur forseti Argentínu, Mauricio Macri, frammi fyrir mikilli öldu mótmæla vegna verðhækkana og verðbólgu sem búist er við að nái 40% á árinu.

Meðal annars vegna tilrauna stjórnvalda til að afnema niðurgreiðslur á olíu sem verið hafa við lýði í landinu í meira en áratug.

Fyrsti hægrisinnaði forsetinn síðan 1916

Macri er fyrsti lýðræðislega kjörni forseti landsins síðan 1916 sem ekki tilheyrir annað hvort hinu sósíaldemókratíska Rótæka borgarabandalagi, eða flokkum sem aðhyllast Perónisma.

Sú hugmyndafræði heitir eftir fyrrum forseta landsins Juan Domingo Perón og konu hans Evu Perón, en hún byggir á popúlisma og korpóritisma ásamt markmiðum félagslegt réttlæti og að Argentína eigi að vera efnahagslega og stjórnmálalega sjálfstæð.

Á barmi allsherjarverkfalls

„Ef stjórnvöld breyta ekki stefnu sinni þá erum við á barmi allsherjarverkfalls,“ segir Roberto Baradel, aðalritari kennarasambands Buenos Aires.

„Þetta er ríkisstjórn sem vinnur fyrir hina ríku og svara einungis kröfum fyrirtækja og alþjóðafyrirtækja. Henni er alveg sama um verkalýðinn.“

Verðbólgumarkmið og jafnvægi hagkerfisins sett í hættu

Kröfur verkalýðsfélaga um hærri laun sem fylgt er eftir með hótunum um allsherjarverkfall í október setur markmið stjórnvalda um að halda aftur af verðbólgu og koma jafnvægi á hagkerfið eftir 12 ár undir stjórn popúlista í mikla hættu.

Til að flækja stöðuna meira þá hafa verkalýðfélög í landinu verið undir stjórn flokks perónista, sem nú situr í stjórnarandstöðu, síðan þau komu leiðtoga flokksins, Juan Domingo Perón, til valda árið 1945 í kjölfar gríðarlegra mótmæla á aðaltorgi borgarinnar.

Hagkerfi þjakað af verndarstefnu

Verkalýðsfélög landsins eru ein helsta hindrun í vegi fyrir áætlunum Macri forseta til að gera Argentínu að opnara og samkeppnishæfara hagkerfi, en það hefur löngum verið það hagkerfi svæðisins með mestu verndarstefnuna.

„Aðalvandinn núna er órói á vinnumarkaði. Ef perónisminn nær á ný vopnum sýnum, munu þeir nota verkalýðsfélögin til að lama landið? Þegar þeir hafa ekki völdin, valda perónistar vandamálum,“ segir Jimena Blanco, greinandi hjá Verisk Maplecrot. Segir hún að hagkerfið sé ekki jafnmikið áhyggjuefni og áður því það virðist vera á batavegi.

Þingkosningar úrslitavaldur

Mikil átök eru innan hreyfingar perónista og eru mismunandi hópar að berjast um völd og stöðu í aðdraganda mikilvægra þingkosninga sem verða í október eftir ár. Nú eru perónistar með meirihluta á þinginu þó þeir hafi ekki forsetaembættið.

Kosningarnar geta orðið úrslitavaldur í því hvort stefna forsetans nái fram að ganga eða ekki, en sterk úrslit fyrir flokk forsetans, Republican Proposal, gætu gefið erlendum fjárfestum þau merki að bætt efnahagsumhverfi sé komið til að vera og því sé óhætt að fjárfesta í landinu.

Þriðjungur þjóðarinnar býr við fátækt

Áhyggjur af upplausn í landinu vegna mótmæla voru undirstrikuð þegar hagstofa landsins tilkynnti um að 32,2% þjóðarinnar búi við fátækt

Stofnunin hefur farið í gegnum miklar umbætur í kjölfar þess að í ljós kom að tölfræðin sem stofnunin gaf út var engan vegin traustvekjandi. Á síðasta ári sagði stofnunin til að mynda að 5% þjóðarinnar byggi við fátækt sem er lægra hlutfall en í Þýskalandi.

Vilja fá eitthvað fyrir ekkert

Á torginu, Plaza de Mayo, þar sem mótmælin standa sem hæst segir götusalinn Héctor Molas forviða: „Kannski vilja þau einhvers konar kraftaverk. En eina svarið er vinnusemi,“ segir hann og bendir á sama tíma á bakkelsið sem hann er að selja áður en hann spyr.

„Hvers vegna virðist það vera að við Argentínumenn virðumst alltaf vilja fá eitthvað fyrir ekki neitt?“