Fyrir um þremur árum gerðu Samtök atvinnulífsins samanburð á gjaldskrám heilbrigðisnefnda sveitarfélaga þar sem fram kom að tímagjald sem einstakar heilbrigðisnefndir lögðu til grund-vallar innheimtu eftirlitsgjalda var mjög mismunandi. Kom þá í ljós að tímagjaldið var hæst á Suðurnesjum, 5.800 kr/klst, en lægst á Kjósarsvæði, 4.200 kr/klst. Munurinn var þá um 38%. Tímagjald heilbrigðisnefndanna hefur hækkað mismikið undanfarin ár.

Í ljós kemur að mest hefur hækkað tímagjaldið þar sem það var lægst áður eða um 50% fyrir eftirlit á Kjósarsvæði og um 42,5% fyrir eftirlit í Reykjavík og á svæði sem nær um Hafnarfjörð, Kópavog, Garðabæ og Álftanes. Á sama tíma hefur neyslu-vísitala Hagstofunnar hækkað um 25%. Á Suðurnesjum hefur gjaldið hækkað minnst, um 8%.

Tímagjaldið er nú hæst á Vesturlandi, 6.644 kr/klst, en lægst á Austurlandi, 6.000 kr/klst. Munur á hæsta og lægsta gjaldi er þannig um 11%. Heilbrigðisnefndirnar innheimta einnig gjald fyrir sýni sem tekin eru til greiningar t.d. á gerlainnihaldi.

Við samanburð á þessu sýnagjaldi sem heilbrigðisnefndirnar innheimta hjá fyrirtækjum landsins kemur í ljós að það er langhæst hjá Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur eða kr. 12.200, en lægst hjá Heilbrigðiseftirliti Norðurlandssvæðis eystra, eða kr. 5.000 fyrir hvert sýni. Munurinn á hæsta og lægsta gjaldi er þannig 144% og vandséð hví þessi þjónusta er svo miklu dýrari í Reykjavík en annars staðar eins og segir í fréttabréfi SA.

Um 300 milljónir á ári

Áætlað er að eftirlitskostnaður sem lagður er á fyrirtækin sé um 300 milljónir króna á ári eða sem svarar um 1.000 kr á íbúa. Þetta kemur misjafnlega út eftir umdæmum og er kostnaður á íbúa hæstur í dreifbýlisumdæmum.