Gert er ráð fyrir að álver það sem nú hefur verið ákveðið að reisa í Helguvík verði 250.000 tonn fyrir árið 2015. Að sögn Ragnars Guðmundssonar, fjármálastjóra Norðuráls, er miðað við að opna með 150.000 tonna framleiðslugetu seinni hluta árs 2010 og ráðast í stækkun í framhaldi þess.

Ragnar sagði að ekki lægi fyrir hvernig álverið verður stækkað og færi það eftir því hvaða orka stæði til boða. Undirbúningur verkefnisins hefur staðið í þrjú ár.

Miðað við fulla vinnslu má gera ráð fyrir að 300 til 400 ný störf skapist í íslenskum áliðnaði. Miðað við 150.000 tonna álver má gera ráð fyrir að 200 til 250 ný störf skapist.

Fjárfestingakostnaður vegna verkefnisins liggur ekki fyrir en oftast er miðað við að 4.000 dollara fjárfesting liggi að baki hverju tonn í álveri sem þessu. Miðað við það kostar 39 milljarða króna að reisa 150.000 tonna álver og 65 milljarða að reisa 250.000 tonna álver. Frekari stækkun en það liggur ekki fyrir