Fjármálaeftirlitið í Þýskalandi telur að bankar og aðrar fjármálastofnanir kunni að tapa allt að 600 milljörðum dala á undirmálslánakrísunni. Þetta kemur fram á vef þýska vikuritsins Spiegel í dag og þar kemur fram að um sé að ræða innanhússskýrslu eftirlitsins. Þar segir ennfremur að þetta sé talin hæsta upphæð sem geti tapast, en fjármálaeftirlitið þýska telji að 430 milljarðar dala sé líklegri upphæð.

Fjármálaeftirlitið í Þýskalandi, BaFin, eða Bundesanstalt für Finanzdienstleistungsafsicht, segir að hingað til hafi tapið vegna undirmálslánanna numið samtals 295 milljörðum dala. Um tíundi hluti þeirrar fjárhæðar hafi fallið til hjá þýskum bönkum.

Spiegen segir að sérfræðingar BaFin hafi áhyggjur af því að fjármálakreppan kunni að breiðast út til annarra sviða viðskiptalífsins. Í því sambandi nefnir BaFin vogunarsjóði, tryggingafélög, lífeyrissjóði og jafnvel einstaka rekstrarfélög.