Um sextíu til sjötíu prósenta samdráttur hefur orðið á sölu á steypu síðustu árin, að sögn Benedikts Guðmundssonar, sölustjóra hjá Steypustöðinni ehf. (áður Mest).

Hann segir að samdráttur í steypusölu hafi byrjað haustið 2007 - eða ári fyrir bankahrunið - en þá hafi fasteignamarkaðurinn byrjað að dala. Nú sé algjört frost á byggingarmarkaðnum. Ekki sé verið að ráðast í nein ný verkefni heldur sé verið að klára þær byggingar sem byrjað var á fyrir bankahrunið. Það séu byggingar á borð við stúdentaíbúðir, elliheimili, hjúkrunarheimili og skóla.

„Fyrirtæki sem voru í viðskiptum við Steypustöðina og áður Mest, og voru í framleiðslu á íbúðum, eru hætt starfsemi," segir hann.

Glitnir, nú Íslandsbanki, eignaðist Steypustöðina fyrir um það bil ári. Þá störfuðu um 110 manns hjá fyrirtækinu en þeim hefur verið fækkað niður í 75 síðan þá. „Framhaldið er síður en svo bjart," segir hann. „Maður sér ekki að ríkisstjórnin sé að fara að hressa byggingarmarkaðinn við."