Búast má við að milli 500 og 1000 Íslendingar verði í Brussel meðan á sjávarútvegssýningunni stendur þann 6. til 8. maí næstkomandi. Það verða bæði sýnendur og gestir. Sýningin sem haldin er í 22. sinn í ár er stærsta sjávarútvegssýningin í heimi og sú mikilvægasta. Um 1.700 sýnendur frá 75 löndum taka þátt og gestir eru um 25.000 frá 140 löndum.

Í tilkynningu frá Íslandsstofu vegna sýningarinnar kemur fram að rúmlega 30 íslensk fyrirtæki sýna í Brussel og eru tveir íslenskir þjóðarbásar á sýningunni, á afurðasýningunni í höll 6 og á tækjasýningunni í höll 4, samtals 750 fermetrar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun heimsækja sýninguna og kynna sér markaðs- og kynningarstarf íslensku sýnendanna.