Þrír stjórnarmenn Glitnis HoldCo og nokkrir íslenskir lykilstafsmenn eignarhaldsfélagsins hafa tryggt sér samanlagða bónusa á bilinu 875 til 1.525 milljónir. Þessu er gerð ítarleg skil í Markaðnum í Fréttablaðinu.

Glitnir innti af hendi nálega 99 milljóna evra greiðslu til skuldabréfaeigenda þann 19. janúar síðastliðinn og það var til þess að virkja varð umfangsmikið bónuskerfi sem var samþykkt á hluthafafundi í mars í fyrra.

Stjórn Glitnis gerði nýlega samkomulag við fyrrum meðlimi slitastjórnar bankans, þar sem 68 milljóna evra skaðleysissjóður var lagður niður, gegn 640 milljóna eingreiðslu til Steinunnar Guðbjartsdóttur og Páls Eiríkssonar, en það þýðir að örfáir stjórnendur félagsins eiga nú rétt á háum bónusgreiðslum.

Íslenskir lykilstarfsmenn félagsins eiga því tilkall til um 26 prósent af bónuspottinum. Sú fjárhæð nemur að minnsta kosti á bilinu um 230 til 400 milljónum króna. Þó er ekki tilgreint nákvæmlega hvaða starfsmenn er þar um að ræða.

Samkvæmt heimildum Markaðarins fer sá hluti bónusanna fyrst og fremst til Ingólfs Haukssonar, framkvæmdastjóra Glitnis, Snorra Arnars Viðarssonar, forstöðumanns eignastýringar félagsins, og Ragnars Björgvinssonar, aðallögfræðings Glitnis. Þessir starfsmenn hafa allir starfað hjá Glitni frá því að slitameðferð gamla Glitnis hófst formlega í apríl 2009.

Hins vegar fer stærstur hluti af eða því sem nemur um 75,9 prósentum af heildarfjárhæðinni, fari til þriggja manna stjórnar félagsins, sem er skipuð af erlendum ríkisborgurum. Þeir sem sitja í stjórn Glitnis eru Bretinn Mike Wheeler, sem er stjórnarformaður, Daninn Steen Parsholt og Norðmaðurinn Tomas Grøndahl.