Sex sölufyrirtæki rafmagns kaupa raforku af Landsvirkjun, þó mörg þeirra framleiði líka sína eigin raforku. Á blaðamannafundi, sem Landsvirkjun hélt í vikunni, var tilkynnt að samningar, sem gerðir hafi verið við þessi fyrirtæki árið 2005, væru að renna út núna um áramótin og þess vegna hefði verið samið upp á nýtt.

Samkvæmt áætlunum sölufyrirtækjanna um innkaup rafmagns til endursölu til heimila og smærri fyrirtækja mun meðalverð lækka um 2,6% á föstu verðlagi milli ára með tilkomu nýju samninganna. Þau sölufyrirtæki sem um ræðir eru: Orka náttúrunnar (ON), sem er dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur,  HS Orka, Orkusalan, Fallorka, Orkubú Vestfjarða og Rafveita Reyðarfjarðar.

„Þessir samningar sem við erum að endurnýja núna voru gerðir árið 2005, þegar raforkulögin voru sett og eru barn síns tíma," sagði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar á fundinum.  „Nú er kerfið orðið þróaðra og mikilvægt að nýta það sem allra best. Við unnum nýtt fyrirkomulag að samningum í nánum samskiptum við okkar helstu viðskiptavini, þar sem gerðar hafa verið ákveðnar breytingar til hagsbóta fyrir kerfið."

Betri nýting

Hörður sagði að Landsvirkjun gæti nýtt tækifærið og skipulagt viðhaldsverkefni betur en áður og selt afl með styttri fyrirvara þeim sem á þurfi að halda. Nýja fyrirkomulagið bætti þannig nýtingu orkuauðlinda landsins og yki sveigjanleika orkufyrirtækja til að bregðast við breyttum aðstæðum í rekstri.

Með nýju samningunum sparar Landsvirkjun allt að 138 MW af afli en meðalaflsparnaðurinn er 92 MW.  Hörður segir að þetta afl sem sparist sé ekki eitthvað sem Landsvirkjun geti selt annað því  „eins og ítrekað hefur komið fram í skýrslum Landsnets þá erum við komin að efri mörkum í aflstöðugleika".

Hann segir að frekar sé verið að afstýra því að þurfa að fara út í kostnaðarsamar fjárfestingar, sem síðan myndu fara út í verðlagið. Ef ekkert hefði verið að gert hefði fyrirtækið líklega þurft að leggja í svipaðar framkvæmdir og nú séu í gangi í Búrfelli. „Til að mæta þörf fyrir 150 MW af afli hefði þurft að fara í um það bil 15 milljarða króna framkvæmdir."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .