*

miðvikudagur, 8. apríl 2020
Innlent 23. mars 2020 15:27

Allt að 23% kjaraskerðing flugliða

Starfandi formaður Flugfreyjufélagsins segir samstöðu um að lækka starfsfhlutfall. Stór hluti verði fyrir 10% skerðingu tekna.

Höskuldur Marselíusarson
Flugfeyja Icelandair að sinna þjónustu um borð í vél félagsins, en að neðan má sjá mynd af Guðlaugu Líney Jóhannsdóttur starfandi formanni Flugfreyjufélags Íslands.

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir starfandi formaður Flugfreyjufélags Íslands telur að samstaða sé um það meðal flugfreyja og flugþjóna hjá Icelandair að verða við beiðni félagsins um að fara niður í 25% starfshlutfall, eins og ný lög heimila að sé gert að fengnu samþykki hvers starfsmanns fyrir sig.

Hún segir að það þýði kjaraskerðingu um 10 til 23% í flestum tilfellum, þó ekki þeim sem eru með laun undir 400 þúsund krónum. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá getur fólk reiknað áhrifin á minna starfshlutfalli á sérstakri reiknivél sem sett hefur verið upp á vef KPMG.

Viðskiptablaðið greindi jafnframt frá því að í morgun hafi 240 manns verið sagt upp hjá Icelandair, þar af enginn þó úr flugáhöfnum félagsins, en 93% starfsmanna þess fara í hlutastörf eins og nýsamþykkt lög heimila sem Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um.

„Lögin heimila að færa starfshlutfall starfsmanna niður í allt að 25%, og er tekið skýrt fram að þeir vinni ekki meira en hið nýja starfshlutfall segir til um hjá viðkomandi vinnuveitenda, en geta svo sótt um bætur á móti hjá Vinnumálastofnun,“ segir Guðlaug Líney.

„Bæturnar eru tekjutengdar upp að 456 þúsund krónum rúmlega í hlutfalli við skerðingu. Segjum að þú sért með 600 þúsund króna mánaðarlaun, og ert fluttur niður í 25% starfshlutfall, þá færðu 150 þúsund krónur frá vinnuveitenda og svo færðu 75% af þessum hámarkstekjutengdu bótum, ef varst í 100% starfshlutfalli. Þeir sem eru í minna starfshlutfalli fá þá minna hlutfall af bótunum sem því nemur. Lögin gilda fram til 31. maí, en ef til uppsagnar fyrir það, þá er starfsmanni heimilt að rifta samkomulagi um skert starfshlutfall og starfa í fyrra starfshlutfalli út uppsagnfrestinn.“

Guðlaug Líney er ánægð með að enginn af félagsmönnum Flugfreyjufélagsins hafi fengið uppsögn í þessum aðgerðum nú og segir þessa lækkun starfshlutfallsins besta kostinn í þeirri stöðu sem kominn er upp hjá félaginu vegna áhrifa útbreiðslu Covid 19 veirusýkingarinnar á eftirspurn og hagkerfið allt.

„Með þessu erum við að vernda bæði störf flugfreyja og flugþjóna og draga úr hættunni á uppsögnum. Það eru allir að taka á sig einhverjar byrðar, lögin gera reyndar ráð fyrir að þeir sem eru með laun undir 400 þúsund verði ekki fyrir skerðingu en ég myndi halda að stór hluti okkar félagsmenna verði fyrir 10% eða minna, en það fer alveg upp í 23% skerðingu.“