Lækkun á meðalfermetraverði hefur verið allt að 30% í Breiðholti síðustu tvö árin, en í langflestum hverfum höfuðborgarsvæðisins lækkaði leiguverð milli ára samkvæmt úrtaki Þjóðskrár sem Hagsjá Landsbankans fjallar um.

Þannig nam lækkun á fermetraverði þriggja herbergja íbúð í Breiðholti 30% og 29% fyrir tveggja herbergja íbúð, en slík íbúð leigist nú á 2.161 krónur fermetrinn að meðaltali.

Það er lægsta fermetraverðið samkvæmt úrtaki þinglýstra leigusamninga Þjóðskrár, sem þó ekki er tæmandi, en hæsta verð tveggja herbergja íbúða er í vesturhluta Reykjavíkur, eða á 2.982 krónur fermetrinn.

Lægsta fermetraverð þriggja herbergja íbúðar er hins vegar á Akureyri, eða 1.584 krónur fermetrinn að meðaltali, en fermetraverð þeirra er hæst í Garðabæ og Hafnarfirði eða 2.642 krónur á fermetrann að meðaltali.

Þó leiguverðið hafi lækkað á einstökum svæðum segir greinendur bankans að leiguverð hafi að jafnaði staðið í stað á höfuðborgarsvæðinu, á sama tíma og íbúðaverð tók að hækka í kjölfar vaxtalækkana á seinni hluta nýliðins árs.

„Frá janúar og fram í maí mældist lækkun milli mánaða samkvæmt nýþinglýstum leigusamningum. Síðan tók við lítilsháttar hækkun milli mánaða fram að október þegar verðið lækkaði. Það mældist 0,7% hækkun á leiguverði milli mánaða í nóvember,“ segir í Hagsjá bankans, en greinendur telja ólíklegt að þegar tölur desembermánaðar komi sjáist miklar breytingar.

Þannig hefur munurinn á fasteignaverði og leiguverði aukist frá því í mars, en í nóvember mældist árshækkun leiguverðs 1,4%, meðan hækkun íbúðaverðs í fjölbýli jókst um 7,0%. Skýringanna má leita til fækkunar ferðamanna sem hafi þýtt færri íbúða í útleigu í Airbnb sem komið hafi mögulega inn á langtímaleigumarkaðinn auk minni eftirspurnar.

Þetta sjáist meðal annars á niðurstöðum könnunar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar meðal leigjenda þar sem 19% þeirra telja framboð leiguhúsnæðis henta sér nú en það hlutfall var 12% fyrir ári síðan.

„Einnig má greina hlutfallslega aukningu meðal leigjenda sem átti auðvelt með að útvega sér leiguhúsnæði. Hlutfallið er nú um 52% en var 48% fyrir ári síðan,“ segir í Hagsjánni.

„Tæplega 13% einstaklinga 18 ára og eldri eru nú á leigumarkaði samkvæmt rannsóknum HMS samanborið við tæp 17% áður en faraldurinn hófst. Hlutfall fólks sem býr í eigin húsnæði hefur hækkað úr 70% fyrir útbreiðslu faraldursins í 73%. Þetta bendir til þess að leigjendum hafi mörgum gefist kostur á að kaupa sér fasteign á síðustu mánuðum.“