*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Innlent 5. september 2020 10:03

Allt að 40 milljarða björgunarhringur

Neyðist Icelandair til að fullnýta öll rúrræði sem félaginu standa til boða slagar umfangið í áætluð heildarútgjöld til framhaldsskólastigsins.

Jóhann Óli Eiðsson
EPA

Neyðist Icelandair til að fullnýta öll þau björgunarúrræði sem félaginu standa til boða slagar umfang þeirra hátt í áætluð heildarútgjöld til framhaldsskólastigsins samkvæmt samþykktum fjárlögum þessa árs. Miðað við sömu svörtu forsendur er umfang ríkisaðstoðar til flugfélaga hér á landi, sem hlutfall af farmiðatekjum flugfélaga í fyrra, sambærilegt hlutfallinu í Sviss.

Margir hafa velt því fyrir sér hve stór björgunarhringurinn sem hið opinbera hefur kastað til Icelandair Group er orðinn. Hluti aðgerðanna er almennur og hefur getað nýst hverjum sem er en undir það falla meðal annars hlutabæturnar og þátttaka ríkisins í greiðslu launa á uppsagnarfresti.

Í árshlutauppgjöri samsteypunnar fyrir annan ársfjórðung kom fram að félagið áætlaði að um 3,2 milljarðar króna féllu í þess hlut vegna uppsagna starfsfólks og í úttekt Ríkisendurskoðunar á hlutabótaleiðinni, sem birt var í maí, kom fram að félög innan samsteypunnar hefðu fengið ríflega 1,1 milljarð króna í gegnum leiðina. Síðan þá hafa liðið þrír mánuðir og því líklegt að sú upphæð hafi hækkað. Í fyrrgreindu árshlutauppgjöri var summunnar ekki getið enda kemur upphæðin ekki inn í bækur félagsins heldur greiðist í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð.

Þá greiddi ríkið félaginu á vormánuðum fyrir að halda loftbrúm til landsins opnum. Samkvæmt tilkynningum frá Stjórnarráðinu greiddust fyrir það um 239 milljónir króna. Til viðbótar við þessa upptalningu hefur félögum innan samsteypunnar boðist að nýta sér frestun á greiðslum opinberra gjalda en þar er á ferð almenn aðgerð. Ekki liggur fyrir hvort og þá í hve miklum mæli samsteypan hefur fært sér þetta í nyt. Alls gera þetta því minnst 4,5 milljarða króna sem þegar liggja fyrir.

Umfangið mikið í dekkstu sviðsmynd

Á næstu dögum má vænta þess að útboðslýsing Icelandair Group vegna fyrirhugaðrar 20 milljarða króna hlutafjáraukningar verði birt. Verði gífurleg ásókn í hlutina, sem seldir verða á genginu einum, verða þrír milljarðar hluta í boði í viðbót auk þess að áskriftarréttindi munu fylgja nýjum hlutum. Síðastliðinn þriðjudag var tilkynnt um að Landsbanki Íslands og Íslandsbanki myndu sölutryggja sex milljarða í útboðinu ef fjárfestar skrá sig fyrir minnst 14 milljörðum hluta.

Bankarnir tveir eru þegar meðal lánveitenda Icelandair en nýverið náði félagið samkomulagi við lánardrottna sem fól í sér allt að tveggja ára frestun á gjalddögum. Það veitti félaginu tæplega sjö milljarða svigrúm en blaðið hefur ekki upplýsingar um það hver stór hluti þeirrar upphæðar á rætur að rekja til ríkisbankanna. Þá fékk félagið nýja rekstrarlánalínu frá bönkunum tveimur, fjóra milljarða frá Íslandsbanka og þrjá milljarða frá Landsbankanum. Að endingu stendur til að bankarnir tveir geti veitt félaginu þrautavaralán upp á ríflega fimmtán milljarða króna. Til stendur að ríkið muni ábyrgjast allt að 90% af láninu, ádráttartímabil verður fram til september 2022 og notkunarálag af ábyrgðarfjárhæðinni á bilinu 0,75-1,00%.

Áætlanir félagsins gera ráð fyrir að félagið muni rétta nokkuð hratt úr kútnum og að það verði orðið arðbært strax á árinu 2022. Félaginu muni vaxa áfram fiskur um hrygg og árið 2024 verði umsvif þess svipuð og árið 2019. Nú skulum við gera eilítinn samkvæmisleik úr öllum þessum tölum en í upphafi hans er gert ráð fyrir þeirri slæmu sviðsmynd að þátttaka í útboðinu skríði rétt yfir 14 milljarða króna og að félagið muni þurfa að draga á þrautavaralánalínuna að fullu. Þá nemur björgunarhringurinn frá hinu opinbera, bankar í eigu þess meðtaldir, tæplega fjörutíu milljörðum króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Icelandair