*

föstudagur, 18. júní 2021
Innlent 11. nóvember 2020 13:24

Allt að 40 milljarða kostnaður

Enn er hægt að koma 20 milljón reikningum hér á landi á rafrænt form, sem sparað gæti þjóðarbúinu stórfé.

Ritstjórn
Einar Geir Jónsson er sölu- og markaðsstjóri Unimaze.
Eyþór Árnason

Á morgun fer fram morgunfundur á vegum samtakanna Icepro, Staðlaráðs Íslands og Unimaze. Fundurinn ber yfirskriftina: „Skilvirkari útgáfa reikninga, aukið hagræði – Ísland í fararbroddi í Evrópu“ sem er öllum opinn.

Þar verður fjallað um ávinning og hagræði í tengslum við einföldun í viðskiptum á milli fyrirtækja. Hvernig rafrænir reikningar geta sparað stórum og smáum fyrirtækjum verulegar upphæðir.

Ísland er sagt vera í fararbroddi í Evrópu í innleiðingu á rafrænum reikningum en þó megi enn gera töluvert betur í tilkynningu frá Unimaze. Reiknað er með að hér á landi séu enn um 20 milljónir reikninga í umferð sem hægt væri að koma á rafrænt form. Þessi reikningar kosta þjóðarbúið gróft metið um 40 milljarða króna.

Þeir sem vilja kynna sér málið eru hvattir til að skipta alfarið yfir í rafræna reikninga, pantanir og aðrar lausnir sem auðvelda og einfalda sjálfvirkni, minnka villuhættu og aðra sóun.

Dagskrá fundarins verður eins og hér segir:

  • Inngangur – Einar Geir Jónsson, Unimaze
  • Skiptir máli að uppfæra rafrænan reikning í nýjustu útgáfu (TS236)? Hvernig nýtist það best? – Markús Guðmundsson, Unimaze
  • Staðan á Íslandi í dag – Bergljót Kristinsdóttir, Icepro
  • Rafræn viðskipti, heilræði ráðgjafans – Davíð Stefán Guðmundsson, Deloitte

ICEPRO eru samtök um rafræn viðskipti á Íslandi. Samtökin voru stofnuð árið 1989 ásamt systursamtökum í öðrum Evrópulöndum. Tilgangurinn var að setja á fót stofnanir sem væru vettvangur fyrir samræmingu í rafrænum viðskiptum landa á milli. Til þess skyldi nota samræmda staðla og gagnasnið. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá en tilgangurinn er enn hinn sami og þörfin engu minni.

Staðlaráð Íslands gefur út íslenska staðla og er vettvangur hagsmunaaðila til að vinna að stöðlun og notkun staðla á Íslandi. Ráðið starfar á grundvelli laga um stöðlun. Aðild að Staðlaráði hefur margvíslega kosti.

Staðlaráð selur íslenska staðla og staðla frá fjölmörgum staðlasamtökum, stendur fyrir námskeiðum og veitir ráðgjöf, upplýsingar og þjónustu um hvaðeina er lýtur að stöðlum og stöðlun. Staðlaráð er fulltrúi Íslands í alþjóðlegu staðlasamtökunum ISO og IEC og evrópsku staðlasamtökunum CEN, CENELEC og ETSI og þátttakandi í norrænu stöðlunarsamstarfi INSTA og NOREK.

Unimaze er sagt vera leiðandi fyrirtæki á sínu sviði sem bjóði upp á að senda og móttaka rafræn viðskiptaskjöl, svo sem reikninga, pantanir, greiðslukvittanir og fleira. Félagið leggur sig fram við að vera í fararbroddi þegar kemur að stöðlum, áreiðanleika og tæknilegum lausnum, svo sem sannreyningu, vottun og örugga auðkenningu. Unimaze er með starfstöðvar í þremur Evrópulöndum og viðskiptavini um allan heim.

Fundurinn er opinn og geta áhugasamir skráð sig með því að senda póst á sales@unimaze.com.