Landsbankinn áætlar að gefa út sértryggð skuldabréf fyrir 35-40 milljarða króna á árinu 2018. Víxlar verða gefnir út mánaðarlega. Leitast verður eftir því að gefa út víkjandi fjármögnun, sé það talið hagfellt, ásamt því að aðrir fjármögnunarkostir verða skoðaðir. Þetta kemur fram í fjármögnunaráætlun Landsbankans fyrir árið 2018 .

Sex flokkar sértryggðra skuldabréfa Landsbankans eru útistandandi, þrír óverðtryggðir og þrír verðtryggðir. Heildarnafnverð flokkanna nemur 73,2 milljörðum króna. Enginn flokkur sértryggðra skuldabréfa er á gjalddaga á árinu 2018 og gerir áætlunin ráð fyrir að nafnverð útgefinna sértryggðra skuldabréfa nemi 108-133 milljörðum króna í árslok 2018.

Stefnt er að því að halda útboð á sértryggðum bréfum að jafnaði einu sinni í mánuði og að útboð verðtryggðra og óverðtryggðra bréfa verði að minnsta kosti ársfjórðungsleg. Arion banki, Íslandsbanki og Kvika sinna viðskiptavakt á eftirmarkaði með sértryggð skuldabréf Landsbankans, en þessir aðilar hafa aðgang að verðbréfalánum i þeim flokkum sem viðskiptavaktin nær til.

Útboð á víxlum verða haldin að jafnaði mánaðarlega. Bæði verða gefnir út nýir víxlaflokkar auk viðbótarútgáfu þegar útgefinna flokka. Hver flokkur verður boðinn til sölu í tvígang í hið minnsta. Fimm víxlaflokkar eru útistandandi og nemur heildarnafnverð þeirra 7,5 milljörðum króna. Heildarútgáfa víxla árið 2018 er óákveðin og ræðst af markaðsaðstæðum.

Þá mun Landsbankinn leitast við að gefa út víkjandi fjármögnun á markaði, sé það talið hagkvæmt og hagfellt fyrir fjármagnsskipan bankans. Aðrir fjármögnunarkostir á markaði verða einnig til skoðunar.