*

miðvikudagur, 20. janúar 2021
Innlent 16. september 2020 11:01

Allt að 48% tollur á íslenskan kísilmálm

Bandaríska viðskiptaráðuneytið vill leggja allt að 48% refsitoll á íslenska framleiðslu vegna meintrar undirverðlagningar.

Ritstjórn
Verksmiðja PCC á Bakka við Húsavík e
Aðsend mynd

Kísilmálmur frá Íslandi, Bosníu-Hersegóvínu, Kasakstan og Malasíu til Bandaríkjanna gæti þurft að bera allt upp í helmingsrefsitolla ef áætlanir bandaríska viðskiptaráðuneytisins ganga eftir að því er Fréttablaðið greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í fyrradag vænti Rúnar Sigurpálsson framkvæmdastjóri kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka niðurstöðu rannsóknarinnar næstu daga, en félagið hafði sent greinargerð til ráðuneytisins.

PCC er sagt standa undir nánast öllum þeim 8.900 tonna innflutningi til Bandaríkjanna á kísilmálmi sem varð á árunum 2017 til 2019 frá Íslandi, en heildarframleiðsla verksmiðjunnar frá upphafi hefur verið ríflega 32 þúsund tonn, sem samsvarar fullri afkastagegu hennar á ári.

Könnunin nú kemur í kjölfar kvartana tveggja bandarískra félaga sem bæði eru sögð vera í töluverðum rekstrarvanda, þá sérstaklega Ferroglobe en lánshæfismat þess var fært niður í ruslflokk fyrr í sumar, en hitt félagið heitir Mississippi Silicon. Framleiðsla þeirra samanlagt samsvarar ríflega helmingi allrar kísilmálmframleiðslu í Bandaríkjunum.

„Sömu fyrirtæki fóru í svipaða vegferð gegn Noregi um árið og höfðu ekki erindi sem erfiði,“ hafði Viðskiptablaðið eftir Rúnari. „Markaðurinn fór á hliðina vegna veirunnar.“

Verð kísilmálms í Bandaríkjunum hefur lækkað um þriðjung síðustu tvö ár, eða úr tæplega 1,4 dölum á pundið um miðbik ársins 2018 niður í 0,95 dali um mitt þetta ár.

Rannsóknarnefnd viðskiptaráðuneytisins komst að þeirri niðurstöðu að vara PCC væri samsvarandi vörum bandarísku fyrirtækjanna sem réttlætti umkvartanir bandarísku fyrirtækjanna um að söluverð íslenska kísilmálmsins ætti að vera hærri, en PCC hafði mótmælt því.

Því mun ráðuneytið leggja til 28 til 48% innflutningstoll á íslenska kísilmálminn, en á tollinnflutninginn frá Malasíu og Bosníu-Hersegóvínu er ætlunin að setja 12 til 21% innflutningstoll.

Hér má sjá fleiri fréttir um framleiðslu kísilmálms á Íslandi: