Veiði- og stangveiðifélög við Eyjafjörð mótmæla harðlega áætlun Arnarlax um framleiðslu á 10.000 tonnum af frjóum norskum eldislaxi í í Eyjafirði en Arnarlax gaf nýlega út drög tillögu að matsáætlun sjókvíaeldis í firðinum.

Nái hún fram að ganga gætu orðið að jafnaði 5 milljónir frjórra laxa í sjókvíum í Eyjafirði segir í fréttatilkynningu frá félögunum. Segja þeir hættuna af slíku eldi fyrir veiðiár í Eyjafirði sem og náttúruna í heild vera augljósa.

„Forsvarsmenn Arnarlax hafa áður bent opinberlega á slaka stöðu bleikjustofna í Eyjafirði sem telur margar helstu bleikjuár landsins,“ segir í tilkynningunni.

„Það kemur því  verulega á óvart að þeir átti sig ekki á þeirri stórfelldu hættu sem fyrirætlanir þeirra setja umræddan stofn í.

Komið hefur í ljós verulegt vandamál vegna lúsar í eldi Arnarlax hf í Arnarfirði. Engum blöðum er um það að fletta að slík vandamál munu einnig koma upp í Eyjafirði verði þessar fyrirætlanir að veruleika.

Lúsasmit kemur hvað verst niður á villtum silungastofnum þar sem þeir lifa í nágrenni við fyrirhugaðar kvíar og halda ekki til hafs eins og laxinn. Útilokað er að bleikjustofnar í Eyjafirði hafi styrk til að þola álag vegna hlýnandi veðurfars og lúsasmits í ofanálag.

Telja má fullvíst að verði þessar áætlanir að veruleika verði stórlega vegið að bleikjustofni í eyfirskum ám og honum jafnvel útrýmt.

Viðurkennt er að allt að einn lax sleppi fyrir hvert tonn af laxi sem framleitt er. Samkvæmt því munu um 10.000 laxar sleppa úr kvíum Arnarlax í Eyjafirði á hverju ári. Þetta eru 10-20 falt fleiri laxar en ganga í Fnjóská á hverju ári.

Líkurnar á því að laxastofninn í Fnjóská þoli slíkt álag frá framandi stofni eru engar. Þá stefnir þetta eldi einnig öðrum ám í verulega hættu. Má þar nefna Laxá í Aðaldal, Skjálfandafljót, Fljótaá, Blöndu, Vatnsdalsá og Víðidalsá.

Laxeldi af þessari stærðargráðu fylgir gríðarlegt magn úrgangs. Verður það að teljast úr takt við aðgerðir sveitafélaganna sem glíma við stórfelldan kostnað til að draga úr saurmengun í firðinum. Verði þetta að veruleika verða þær aðgerðir til lítils.

Veiði- og stangveiðifélög í Eyjafirði hvetja stjórnvöld til að hafna þessum áformum. Jafnframt hvetja þau sveitarfélög, veiðifélög, smábátasjómenn, veiðimenn og náttúruunnendur til að mótmæla þessum áformum á öllum stigum.

Framundan er hörð barátta til verndar náttúrunni í Eyjafirði. Þessi barátta snýst ekki eingöngu um verndun silungastofna heldur líka um ímynd okkar fagra Eyjafjarðar og stefnu til framtíðar.“

Eftirtalin félög standa að fréttatilkynningunni:

  • Veiðifélag Svarfaðardalsár
  • Veiðifélag Hörgár
  • Veiðifélag Eyjafjarðarár
  • Veiðifélag Fnjóskar
  • Stangveiðifélagi Flúðir
  • Stangveiðifélagið Flugan Akureyri
  • Stangaveiðifélag Akureyrar (SVAK)