Viðskiptaráð Íslands áætlar að uppfærsla Íslands í flokk nýmarkaðsríkja hjá vísitölufyrirtækinu FTSE Russell muni hafa í för með sér 50-55 milljarða króna innflæði frá vísitölusjóðum inn á íslenska hlutabréfamarkaðinn.

Nasdaq tilkynnti í byrjun apríl að FTSE Russell hefði ákveðið að færa Ísland upp í flokk nýmarkaðsríkja (e. Secondary Emerging Markets). Í síðustu viku tilkynnti vísitölufyrirtækið að íslenski markaðurinn verður færður upp um flokk í þremur jafn stórum skrefum; það fyrsta tekur gildi 19. september 2022, annað skrefið 19. desember 2022 og síðasta skrefið 20. mars 2023.

Hlutabréf fjórtán félaga á íslenska hlutabréfamarkaðnum fá tæplega 0,14% vigt í Emerging All Cap vísitölunni. Áætlað innflæði vegna fjárfestinga vísitölusjóða sem fylgja FTSE vísitölum er reiknað út frá þessari vigt. Þá segir í skýrslu Viðskiptaráðs að uppfærslan geti einnig leitt til aukins áhuga annarra erlendra fjárfesta.

Sjá einnig: Íslenski markaðurinn færður upp um flokk

„Mikilvægar skráningar fyrirtækja undanfarin ár, aukinn seljanleiki og ýmsar aðrar umbætur á markaði hafa jafnt og þétt aukið áhuga innlendra og alþjóðlegra fjárfesta og nú leitt til þessarar ánægjulegu niðurstöðu,“ sagði Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, þegar ákvörðun FTSE Russell var kynnt. Þá styðji þessi þróun við fjármögnunarmöguleika skráðra félaga.

Mynd tekin úr skýrslu Viðskiptaráðs.
Mynd tekin úr skýrslu Viðskiptaráðs.

Líkt og sjá má á myndinni er áætlað að eftirfarandi fjórtán félög fari inn í nýmarkaðsvísitölu FTSE:

Mid cap:

  • Arion banki
  • Marel

Small cap:

  • Eik
  • Eimskip
  • Hagar
  • Icelandair
  • Íslandsbanki
  • Kvika banki
  • Festi
  • Reginn
  • Reitir
  • Síminn
  • Sjóvá
  • VÍS

Þegar ákvörðunin var tilkynnt í apríl var Síldarvinnslan einnig meðal ofangreindra félaga en útgerðarfélagið var síðar fjarlægt af listanum vegna laga sem gilda um fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi hér á landi.