*

sunnudagur, 20. júní 2021
Innlent 6. janúar 2017 16:11

Allt að 6,5 milljarða tekjutap

Skýrsla fjármálaráðuneytisins yfir eignir Íslendinga á aflandssvæðum segir að ríkið hafi orðið af gríðarlegum skatttekjum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Umfang eigna og umsvifa Íslendinga á aflandssvæðum hafa frá árinu 1990 legið á bilinu 350 til 810 milljarða króna að því er starfshópur fjármálaráðuneytisins áætlar.

Telur hann að mögulegt tekjutap hins opinbera vegna vantalinna eigna geti því numið allt frá 2,8 til 6,5 milljörðum miðað við núgildandi tekjuskattslög.

Nefndin tekur þó fram að mjög erfitt sé að leggja mat á umfang eignanna, en stuðst er við aðferðir frá öðrum ríkjum.

Beindi hún sjónum sínum að þremur meginþáttum, það er:

  1. Ólögmætri milliverðlagningu í vöruviðskiptum (oft nefnt hækkun/lækkun í hafi).
  2. Eignastýringu erlendis.
  3. Óskráðum fjármagnstilfærslum.

„Meginniðurstaða matsins er að uppsafnað fjármagn á aflandssvæðum vegna ólögmætrar milliverðlagningar í vöruviðskiptum yfir tímabilið 1990-2015 geti verið á bilinu 140-160 ma.kr.,“ segir í frétt ráðuneytisins.

„Einnig var stuðst við upplýsingar um eignir í stýringu erlendis sem hafa verið notaðar til þess að áætla umfang aflandseigna, en starfshópurinn telur umfang þeirra geta verið á bilinu 110-350 ma.kr.

Árétta þarf að ekki er hægt að segja til um það hversu stór hluti umfangsins hafi verið gefinn upp til skatts á íslensku skattframtali.

Að lokum var lagt mat á óskráðar fjármagnstilfærslur milli landa og þær taldar geta numið á bilinu 100-300 ma.kr.

Mögulegt er að þær fjárhæðir sem um ræðir skarist að einhverju leyti. Að því gefnu að fjárhæðirnar skarist ekki er niðurstaðan sú að alls geti umfangið hafa numið á bilinu 350-810 ma.kr. í lok árs 2015, með miðgildi í 580 ma.kr.“

Jafnframt segir að hið opinbera geti hafa orðið af 2,8 - 6,5 milljörðum króna vegna þessa ár hvert.