Fjárlaganefnd Alþingis leggur til að veittur verði aukinn sveigjanleiki um hlutfall ríkisábyrgða á brúarlánum til fyrirtækja í rekstrarvanda vegna kórónufaraldursins, sem geti orðið á bilinu 50-70%.

Þetta kemur fram í nefndaráliti um frumvarp til fjáraukalaga og sérstakt tímabundið fjárfestingarátak, sem felur í sér ábyrgðarheimildina. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun felur nefndarálitið einnig í sér breytingar á hlutfallslegum skilyrðum um tekjufall á þeim tillögum sem stjórnvöld kynntu upphaflega og fjallað var ítarlega um í blaði síðustu viku .

Heildarfjárhæð lána sem slíka ábyrgð geta hlotið verður óbreytt, 70 milljarðar króna, en heildarábyrgð ríkissjóðs getur numið allt að 50 milljörðum króna í stað 35 áður. Í álitinu kemur fram að gera megi ráð fyrir þónokkurri tapsáhættu af ábyrgðunum, enda sé um fyrirtæki í verulegum fjárhagsvanda að ræða.

Nauðsynlegt er sagt að ráðherra setji Seðlabankanum, sem mun annast framkvæmdina, skilyrði um með hvaða hætti svigrúminu skuli ráðstafað. Tryggja þurfi að lánin byggi á „skýrum, málefnalegum og gagnsæjum forsendum“.

Sveigjanleikanum sé ætlað að tryggja að aðgerðin nýtist þeim fyrirtækjum best sem mest þurfi á henni að halda.