Eitt af hverjum fjórum sveitarfélögum á Íslandi hefur yfir fjörutíu prósent af tekjum sínum frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Einstök sveitarfélög fá allt að sjötíu prósent af tekjum sínum úr sjóðnum. Þetta kemur fram í svari Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir í samtali við Fréttablaðið að sú umræða komi upp reglulega hvort þetta kalli á frekari sameiningar sveitarfélaga svo fleiri þeirra séu sjálfbær. „Það er hægt að segja að þessi sveitarfélög séu svo háð sjóðnum að þau gætu ekki lifað án hans. Svo má líka snúa þessu við og segja að ef jöfnunarsjóðurinn væri ekki hefðu sveitarfélögin ekki getað tekið yfir stór verkefni eins og þjónustu við fatlaða og grunnskólann," segir Halldór.

Spurður hvort litlu sveitarfélögin lifi á þeim stóru segist Halldór ekki vilja nálgast málið með þeim hætti. Hins vegar megi færa fyrir því rök að engin skynsemi felist í því að vera með mörg lítil sveitarfélög. "Það hafa oft komið fram tillögur á vettvangi Sambands sveitarfélaga um að lágmarksstærð sveitarfélaga hér væri þúsund manns, sem myndi breyta miklu. Það hefur alltaf verið fellt og því stefna sveitarstjórnarfólks að það eigi ekki að stíga þetta skref," segir Halldór við Fréttablaðið.