Á svæðinu neðan Öskjuhlíðar ætlar Háskólinn í Reykjavík að reisa 390 háskólaíbúðir fyrir um 500-700 íbúa, að því er fram kemur á vef Reykjavíkurborgar .

Hefur tillaga að breytingu á deiliskipulagi HR verið auglýst, en í henni felst stækkun á svæðinu neðan Öskjuhlíðar og fjölgun háskólaíbúða úr 350 í 390 og hækkun húsa að hluta.

Byggingarmagn 45 þúsund fermetrar

Loks er gert ráð fyrir lóð fyrir skólahúsnæði og lóð fyrir íbúðabyggð á tveimur lóðum til viðbótar, það er í krika Flugvallarvegar og Nauthólsvegar.

Áætlað byggingarmagn er 45 þúsund fermetrar, en í deiliskipulagstillögu segir að henni verði stuðlað að heilsteyptara byggðamynstri á staðnum sem tengi saman Háskólagarða HR og Hlíðarenda.

Er jafnframt vísað í markmið um uppbyggingu í Vatnsmýrinni.