Ný samantekt Hagstofunnar yfir laun í 226 einstökum störfum og starfsstéttum sýnir að dreifing launa er mjög mismikil innan stétta eftir störfum.

Sést að dreifing launa er lítil í störfum við barnagæslu og við sérkennslu í leik- og grunnskólum meðan laun sérfræðinga í viðskiptagreinum sem og laun lækna voru mjög dreifð.

Allt að 80% með svipuð heildarlaun

Í ófaglærðum störfum við barnagæslu voru mánaðarleg heildarlaun á bilinu 250-350 þúsund krónur hjá 80% starfsmanna í starfsgreininni og svo voru 65% þeirra sem störfuðu við sérkennslu í leik- og grunnskólum með heildarlaun á bilinu 450-550 þúsund krónur á mánuði.

Einnig var dreifing launa vélgæslufólks við málmgrýtis- og bræðsluofna einnig nokkuð lítil. Voru um 40% þeirra með heildarlaun á bilinu 550-650 þúsund og rúmlega 30% með heildarlaun á bilinu 450-550 þúsund krónur.

Launabilið allt að 550 þúsund

Á hinum enda skalans yfir launadreifingu voru um 20% launamanna sem sinntu sérfræðistörfum í viðskiptagreinum með heildarlaun á bilinu 550-650 þúsund og önnur 20% voru með laun á bilinu 650-750 þúsund á mánuði. Til þess flokks teljast bæði opinberir starfsmenn og launamenn á almennum vinnumarkaði hjá ólíkum fyrirtækjum og stofnunum.

Einnig voru laun lækna mjög dreifð, en helmingur þeirra dreiðfðist jafnt á launabilin 750-1.350 þúsund krónur, en það sem skýrir dreifinguna að einhverju leiti er að í þessum hópi er bæði að finna almenna lækna og sérfræðilækna.