Hagnaður bandarískra fjárfestingarbanka og sjóðstýringarfyrirækja dróst mikið saman á fyrsta ársfjórðungi, en síðustu daga hafa Morgan Stanley, Bank of America, JPMorgan Chase og Citigroup öll skilað ársfjórðungsuppgjörum.

Þannig féll hagnaður minnsta af sex stóru bandarísku bönkunum, Morgan Stanley um 30%, eða niður í 1,7 milljarða Bandaríkjadala, en tekjur bankans námu 9,49 milljörðum dala, sem var rétt undir áætlunum greinenda.

Forstjóri bankans, James Gorman, fékk sjálfur kórónuveiruna sem veldur Covid 19 sjúkdómnum, en virðist hafa náð sér vel, þó áhrif heimsfaraldursins séu enn mikil á hagkerfið og samfélagið allt.

Hagnaður bankans var þó nokkru betri en sambærilegra banka, eða 9,7% meiri að því er WSJ greinir frá, en lækkun hagnaðar keppinauta bankans voru allt frá því að nema 45% hjá Bank of America niður í 89% hjá Wells Fargo.

Sjóðstýringarfyrirtækið BlackRock birti sitt ársfjórðungsuppgjör einnig í morgun líkt og Morgan Stanley, en hagnaður þess lækkaði um 23% milli ára, og fóru eignir í stýringu sjóðsins niður fyrir 7 þúsund milljarða dala á tímabilinu. Nam hagnaður Black Rock á fyrsta ársfjórðungi nú 806 milljónum dala, sem er lækkun frá 1,05 milljörðum fyrir ári síðan.

Minni hagnaður þrátt fyrir sömu tekjur

Nam hagnaður Bank of America 4,01 milljarði dala, sem er lækkun frá 7,31 milljarði dala fyrir ári síðan, en tekjur hans lækkuðu á sama tíma um 1%, eða úr 23 milljörðum dala í 22,7 milljarða sem er rétt yfir væntingum greinenda.

Ákvað bankinn að setja til hliðar 3,6 milljarða dala vegna væntinga um að lánþegar myndu ekki standa í skilum, en samhliða miklu auknu atvinnuleysi í landinu eru margir þeirra í auknum vanda við að greiða afborganir sínar.

Hagnaður Goldman Sachs lækkaði um 46% á ársfjórðungnum miðað við sama tíma fyrir ári, og nam hagnaðurinn 1,21 milljarði dala, en var fyrir ári 2,25 milljarðar dala. Tekjurnar stóðu hins vegar nokkurn veginn í stað í 8,74 milljörðum dala.

Hagnaður Wells Fargo langt undir væntingum

Mest lækkun hagnaðar stóru bankanna sem hafa verið að senda uppgjör fyrsta ársfjórðungs síðustu daga var hjá Wells Fargo , eða um 89% eins og áður segir, úr 5,86 milljörðum dala í 653 milljónir dala fyrir ári síðan.

Tekjur bankans drógust saman um 18%, úr 21,61 milljarði dala, í 17,72 milljarða, sem var töluvert undir væntingum greiningaraðila sem höfðu spáð því að tekjurnar myndu nema 19,4 milljörðum dala. Wells Fargo setti til hliðar sem nemur 3,83 milljörðum dala vegna vænts taps af lánveitingum, sem er hækkun um 3 milljarða frá því á síðasta ársfjórðungi.