Í Al-Thani málinu er ákært annars vegar fyrir umboðssvik og hins vegar fyrir markaðsmisnotkun. Ákvæði um umboðssvik og refsingu við þeim er að finna í Almennum hegningarlögum og þar segir að venjuleg refsing við slíkum brotum sé fangelsi allt að tveimur árum, en hins vegar megi þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að sex árum.

Viðurlög við markaðsmisnotkun er svo að finna í lögum um verðbréfaviðskipti, en þar segir að brot almennt gegn ákvæðum þessara laga varði sektum eða fangelsi allt að sex árum. Hafa ber svo í huga að þótt svo fari að hinir ákærðu verði dæmdir sekir fyrir bæði umboðssvik og markaðsmisnotkun þá leggjast refsiheimildirnar ekki saman. Hámarksrefsing verður eftir sem áður sex ára fangelsisvist.