*

þriðjudagur, 15. október 2019
Innlent 18. desember 2018 13:57

Allt að sex þyrlur til Akureyrar

Í fyrsta sinn verður boðið upp á útsýnis-, verktaka- og neyðarflug með þyrlum á Norðurlandi í sumar.

Höskuldur Marselíusarson
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Circle Air og Roy Knaus, forstjóri Heli-Austria við eina af þyrlum félagsins.
Aðsend mynd

Stærsta þyrlufyrirtæki Austurríkis haslar sér völl á Íslandi með þyrlum sem staðsettar verða í fyrsta sinn til lengri tíma á Akureyri. Félögin Heli-Austria og Circle Air skrifuðu undir samning þessa efnis í síðustu viku.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson framkvæmdastjóri Circle Air sem starfrækir leiguflug og útsýnisflug frá Akureyrarflugvelli segir að hugmyndin sé að eftir að tímabilinu fyrir það, sem nær yfir febrúar fram í júní, ljúki muni þyrlurnar verða áfram, en fjöldinn fari eftir eftirspurn.

„Það fer eftir fjölda flugstunda sem óskað er eftir hve margar þær verða þegar uppi er staðið. Það hefur verið mikill uppgangur í útsýnisferðum í Reykjavík með þyrlum en það hefur aldrei verið í boði fyrir norðan. Það hefur alltaf kostað ferjun á þyrlum norður til þess sem kaupandinn þarf að greiða fyrir,“ segir Þorvaldur sem er spenntur fyrir tækifærunum.

„Við höfum verið að bjóða upp á leiguflug og hefðbundin útsýnisflug með flugvélum fyrir ferðamenn fram að þessu, en erum vitanlega spennt fyrir viðtökum á næsta ári, þegar við höfum þyrlu staðsetta á Akureyri að staðaldri. Heli-Austria er öflugur samstarfsaðili með yfir 35 ára reynslu og stóran flota af þyrlum.“

Aukið flug beint til Akureyrar

Þorvaldur nefnir sem dæmi um aukin umsvif ferðaþjónustu á Akureyri allt árið í kring beint flug frá Keflavík innanlands, auk flugferða bresku ferðaþjónustunnar Super Break sem hefjast á ný í vor frá Bretlandseyjum. „Svo er hollenska ferðaskrifstofan Voigt travel að byrja að fljúga frá Rotterdam í maí, einu sinni til tvisvar í viku og þeir ætla sér að vera allt árið,“ segir Þorvaldur.

„Það er gríðarlegur ávinningur af því og kostnaðarhagræði fyrir okkur að vera í samstarfi við aðila sem rekur mikinn fjölda af þyrlum og eru með flugrekstrarleyfi í það, auk mikillar reynslu. Þeir gera þetta sama í Austurríki, eru í fjallaskíðamennsku, útsýnisflugi auk þess að vera stórir aðilar í neyðarþjónustu. Þyrlur þeirra hafa mikla breidd, bæði búnað fyrir þyrluskíðamennskuna, neyðarflutninga og svo er hægt að nota þessar þyrlur í ýmis konar þungavinnu í verklegum framkvæmdum.“

Segjast ná hagræðinu í sjúkraflutningum

Frá því í haust hefur Heli-Austria þjónað þyrluskíðamennsku á vegum Arctic Heli Skiing, sem gerir út frá Klængshól í Skíðadal, sem Þorvaldur segir leiðandi í þyrluskíðamennsku á Íslandi. Roy Knaus forstjóri Heli-Austria sér mikla möguleika fyrir ýmis konar frekari notkun á þyrlum hér á landi.

„Okkur hefur sýnst að megnið af þyrlunotkun á Íslandi sé bundið við ferðaþjónustu, þá sérstaklega út frá Reykjavík, en við teljum mikla möguleika felast í annars konar notkun víðar um landið einnig,“ segir Knaus.

„Að auki teljum við að hægt sé að ná mikilli hagræðingu í sjúkraflutningum, sérstaklega á Suður– og Suðausturlandi, með notkun smærri og hraðfleygari þyrlna. Við erum spennt fyrir samstarfi við íslenska samstarfsaðila okkar og vonum að þetta verði kærkomin viðbót og geti jafnframt fjölgað nýtingarmöguleikum á þyrlum umfram það sem nú er.“